Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Forsætisráðuneytið

Norræn samstarfsáætlun um jafnrétti, jafnræði og jöfn tækifæri LGBTI fólks á Norðurlöndum

Fyrsta norræna samstarfsáætlun um málefni hinsegin fólks var samþykkt á fundi norrænna jafnréttisráðherra 5. nóvember sl. Áætlunin hefur verið þýdd á íslensku og ber titilinn Jafnrétti, jafnræði og jöfn tækifæri LGBTI fólks á Norðurlöndum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Við megum ekki gleyma að ræða mikilvæg málefni eins og réttindi hinsegin fólks þótt við séum að kljást við heimsfaraldur og því er ánægjulegt að sjá stefnuna nú aðgengilega á íslensku. Norðurlöndin eru í fararbroddi í heiminum í málefnum hinsegin fólks og Ísland hefur nýlega skipað sér í fremstu röð í heiminum með nýlegri löggjöf í málefnum hinsegin fólks.“

Í áætluninni eru þrjú áherslusvið skilgreind:

  • LGBTI fólk geti lifað frjálst og opið og notið jafnra tækifæra í lífinu á við annað fólk. Fyrirbyggja þarf og sporna gegn mismunun og hatursglæpum. LGBTI fólk hafi sama aðgang að hreyfanleika milli Norðurlandanna og annað fólk.
  • LGBTI fólk hafi jafnan aðgang að líkamlegri og andlegri heilbrigðisþjónustu. Dregið verði úr þeim mikla mun sem er á líkamlegri og andlegri heilsu LGBTI fólks og annars fólk. LGBTI fólk á að hafa jafnan aðgang að öllum sviðum samfélagsins.
  • Nýta þekkingu og reynslu LGBTI-samtaka borgarasamfélagsins í vinnu um jafnrétti, jafnræði og jöfn tækifæri LGBTI fólks. Taka á þátt í og efla þróun borgarasamfélags, tengslanet og miðlun reynslu í þágu áframhaldandi þróunar LGBTI-mála á Norðurlöndum.

Með samstarfi Norðurlanda í jafnréttismálum hefur verið stefnt að því að löndin verði eitt þeirra svæða í heiminum þar sem mest jafnrétti ríkir. Nýtt svið bættist við jafnréttissamstarfið 2020 og það á að koma í veg fyrir jaðarsetningu hinsegin fólks í norrænum samfélögum.

Hér má finna hlekk á Norrænu samstarfsáætlunina. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta