Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vel heppnaður samráðsfundur um stöðu mannréttindamála

Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi hélt rafrænan samráðsfund með hagsmunaaðilum 27. janúar 2021 til þess að kynna ferlið við allsherjarúttektir Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála (UPR) og bjóða gestum að koma með ábendingar eða tillögur um það sem leggja ætti  áherslu á í næstu skýrslu Íslands. Mikil áhersla er lögð á samráð við félagasamtök og almenning í ferlinu. Alls tóku á fjórða tug þátt í fundinum, einkum lykilaðilar frá ýmsum félagasamtökum og  fulltrúar ýmissa ráðuneyta í stýrihópnum. Margar gagnlegar athugasemdir og ábendingar komu fram í máli fundargesta sem verða nýttar við gerð skýrslu Íslands.

Fundarstjóri var Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Í upphafi fundar flutti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, ávarp og ræddi almennt um mikilvægi mannréttinda, samstarf stjórnvalda, víðtækt samráð og aðgerðir til að standa vörð um mannréttindi, bæði heima fyrir og í alþjóðlegu samhengi. Að því loknu fjallaði Þorvarður Atli Þórsson, frá fastanefnd Íslands í Genf, almennt um fyrirkomulag allsherjarúttekta Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda. Þá fór Elísabet Gísladóttir, formaður stýrihóps Stjórnarráðsins um mannréttindi, nánar yfir ferlið við allsherjarúttektina hér á landi, starf stýrihóps Stjórnarráðsins um mannréttindi og stöðu þeirra tilmæla sem Ísland fékk í síðustu úttekt. Stýrihópurinn heldur utan um vinnuna en hann varð einmitt til í framhaldi af síðustu allsherjarúttekt, í þeim tilgangi að tryggja reglulegt samráð og samstarf á sviði mannréttinda þvert á ráðuneyti. Hér að neðan má nálgast kynningarglærur fundarins.

Að loknum kynningum komu gestir ýmsum ábendingum á framfæri og lýstu yfir ánægju sinni með samráðið. Þá kom einnig fram mikill áhugi meðal félagasamtaka að vinna saman að skýrslum til Mannréttindaráðsins og hvetja sem flesta aðila til að leggja sitt af mörkum í þeim efnum.

Ísland mun skila skýrslu sinni til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna vegna næstu úttektar fyrir 1. október 2021. Skýrslan mun fjalla um þá þróun sem hefur átt sér stað síðan síðasta úttekt fór fram árið 2016 og hvort og hvernig hefur verið brugðist við þeim athugasemdum sem fram komu í kjölfar þeirrar úttektar. Á vef Stjórnarráðsins má finna upplýsingar um úttektarferlið og fjölbreytt gagnasafn. Drög að skýrslunni verða birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins í vor, en auk þess er hægt að koma frekari athugasemdum og ábendingum á framfæri á netfangið [email protected].

Glærur fundarins:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta