Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Þrjátíu ára sendiherraafmæli Sigríðar Snævarr

Pär Ahlberger sendiherra Svíþjóðar á Íslandi og Sigríður Snævarr - myndVilhelm Gunnarsson

Þrjátíu ár eru í dag síðan Sigríður Snævarr varð sendiherra Íslands í Stokkhólmi og varð þar með fyrst íslenskra kvenna til að taka við sendiherraembætti.

Sigríður á að baki langan og gæfuríkan feril í utanríkisþjónustunni. Hún hóf störf í utanríkisráðuneytinu árið 1978 en ári síðar varð hún sendiráðsritari í sendiráði Íslands í Moskvu. Hún sá svo um málefni Evrópuráðsins, gegndi stöðu blaðafulltrúa ráðuneytisins og síðan varð hún sendifulltrúi í sendiráðinu í Bonn, höfuðborg Vestur-Þýskalands.

1. febrúar 1991 varð Sigríður sem fyrr segir sendiherra Íslands í Stokkhólmi og markaði skipun hennar tímamót í íslenskri jafnréttissögu. Morgunblaðið greindi frá skipun Sigríðar 3. janúar 1991 og kvaðst hún þá hlakka til að starfa í Svíþjóð. Hún „hefði dvalið þar á unglingsárum og Norðurlandasamvinna væri sér nánast í blóð borin.“ Árið 1996 varð Sigríður prótókollstjóri ráðuneytisins og þremur árum síðar tók hún við embætti sendiherra Íslands í París og gegndi því til 2004. 

Sigríður er í dag sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu, Malasíu, Singapúr og Páfagarði og er hún ein sjö heimasendiherra í utanríkisráðuneytinu. Þar sinnir hún sérstaklega nýjum mörkuðum með áherslu á post-covid lausnir, nýsköpun og tækni í samstarfi við Íslandsstofu.

Sigríður ræddi störfin í utanríkisþjónustunni í fortíð, nútíð og framtíð í hlaðvarpsþættinum Utanríkisvarpinu í fyrra, á áttugasta afmælisári utanríkisþjónustunnar. Henni eru færðar hamingjuóskir í tilefni þessara tímamóta. 

 

  • Þrjátíu ára sendiherraafmæli Sigríðar Snævarr - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta