Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ávarpaði Arctic Frontiers-norðurslóðaráðstefnuna

Guðlaugur Þór á fundinum í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði áherslu á mikilvægi sjálfbærni þegar hann flutti opnunarávarp og tók þátt pallborðsumræðum á ráðstefnunni Arctic Frontiers sem fram fór í dag. 

Norðurslóðaráðstefnan Arctic Frontiers er árviss viðburður. Hún fer jafnan fram í Tromsö í Noregi en eins og svo margar aðrar alþjóðaráðstefnur fer hún fram á netinu í ár.Ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tóku þátt Ine Eriksen-Søreide, utanríkisráðherra Noregs, norðurslóðasendiherra Rússa Nikolay Korchunov, og Edward Alexander leiðtogi Gwich’in frumbyggjasamtakanna. 25 ára starfsafmæli Norðurskautsráðsins, friður og samvinna á norðurslóðum var þema umræðnanna. 

Þar sem Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu hélt Guðlaugur Þór opnunarávarp ráðstefnunnar. Þar kom hann inn á þann góða árangur sem náðst hefur í norðurslóðasamstarfi og hvernig tryggja mætti áframhaldandi árangur undir merkjum samvinnu þvert á landamæri. Loftslagsbreytingar væru mikil áskorun sem krefðist aðlögunar vegna hækkandi hitastigs, bráðnunar jökla og súrnunar sjávar. Þá rakti ráðherra hvernig Ísland hefði mætt ýmsum áskorunum í tímans rás á sjálfbæran hátt og tók hann sem dæmi að Íslendingar hefðu lært af eigin reynslu að hafið og fiskistofnar þess væru ekki óþrjótandi auðlind. Sjálfbær og arðbær sjávarútvegur væru raunhæfur kostur sem byggjast yrði á vísindalegum grunni. Hann tók einnig fram að heimsfaraldurinn hefði sett mark sitt á samstarfið í Norðurskautsráðinu á formennskutíma Íslands, sem hófst í maí 2019, en þrautseigja og aðlögunarhæfni lýsti bæði íbúum svæðisins og starfinu í ráðinu.

Starf Norðurskautsráðsins byggir á Ottawa-yfirlýsingunni frá 1996 um að stuðla að sjálfbærri þróun friði og öryggi á norðurslóðum. Þátttaka fulltrúa frumbyggja svæðisins í starfinu gerir Norðurskautsráðið einstakt í alþjóðlegu samstarfi. Rússar taka við formennskukeflinu af Íslendingum í maí næstkomandi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta