Áframhaldandi samstarf við Kvenréttindafélag Íslands og Samtökin ´78
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, undirrituðu samstarfssamning í dag um ráðgjöf, fræðslu, námskeiðahald og upplýsingagjöf um jafnrétti kynja á innlendum og erlendum vettvangi.
Meginmarkmið samningsins er að Kvenréttindafélagið sinni ýmiss konar fræðslu, m.a. gerð upplýsingaefnis á íslensku og ensku, opnum fundum, útgáfu námsefnis um jafnréttismál á rafrænu formi eða prenti.
Samningurinn er til þriggja ára og greiðir forsætisráðuneytið Kvenréttindafélaginu 10 milljónir króna á ári í þessi þrjú ár til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til.
Þá undirrituðu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78, hagsmuna- og baráttusamtaka hinsegin fólks á Íslandi, samning um að samtökin sinni sértækri fræðslu, þjónustu og ráðgjöf er varða málefni hinsegin fólks.
Með samningnum er framhald samstarfs frá síðustu tveimur árum eflt. Þannig er samningnum ætlað að stuðla að þjónustu annars vegar fyrir hinsegin einstaklinga og aðstandendur þeirra og hins vegar fyrir fagfólk í almannaþjónustu, þar með talið í opinberri stjórnsýslu og skólum.
Ýmis lög sem tengjast réttindum hinsegin fólks voru samþykkt í lok 2020 sem segja má að komi Íslandi í fremstu röð hvað varðar málefni hinsegin fólks.
Samningurinn er til þriggja ára, og greiðir forsætisráðuneytið Samtökunum ´78 15 milljónir króna árlega næstu þrjú árin til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til.
Þá var undirritaður samningur í upphafi 2021 við Samtökin ´78 um 20 milljóna króna einskiptis fjárframlag og þannig hafa fjárframlög ríkisins til þeirra margfaldast á síðustu þremur árum.