Skýrsla Íslands til Sameinuðu þjóðanna vegna samnings um réttindi fatlaðs fólks
Ísland hefur birt fyrstu skýrslu Íslands um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Henni er ætlað að veita heildstæða mynd af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að efna skuldbindingar samkvæmt samningnum. Reynt hefur verið að gefa sem réttasta mynd af því hvernig samningnum hefur verið framfylgt og varpa ljósi á þær áskoranir sem komið hafa upp við innleiðingu hans.
Skýrslan var unnin af vinnuhópi sem samanstóð af fulltrúum frá dómsmálaráðuneytinu, velferðarráðuneytinu (nú félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið), mennta- og menningarmálaráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Vinnuhópurinn átti auk þess samráð við stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi þar sem sitja fulltrúar allra ráðuneyta.
Lögð var mikil áhersla á samráð í vinnunni og upplýsinga aflað frá ýmsum aðilum, svo sem stofnunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, almannaheillasamtökum, háskólasamfélaginu og almenningi.