Utanríkisráðherrar Norðurlandanna ræddu loftslagmál á árlegri málstofu
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í gær þátt í málstofu um loftslagsmál, Hanalys 2021, með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Finnland skipulagði málstofuna en Finnar fara um þessar mundir með formennsku í norrænni samvinnu. Ráðstefnumiðstöðin Hanaholmen í Helsinki sá um framkvæmd hennar á netinu.
Rætt var um loftslagsmálin frá ýmsum sjónarhornum, þar með talið mannréttindum, norðurslóðum, kynjajafnrétti, öryggismálum og alþjóðasamskiptum.
„Norðurlöndin hafa lengi verið í fararbroddi á heimsvísu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í opnunarávarpi sínu. „Við eigum sameiginlega framtíðarsýn um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Það felur í sér að tryggja að áherslur einkageirans og fjárfesta verði á grænar og hreinar fjárfestingar og að atvinnulífið taki ábyrgð á grænum umbreytingum hagkerfa okkar.“
Guðlaugur Þór lagði ennfremur áherslu á loftslagsmál á norðurslóðum og benti á mikilvægi Norðurskautsráðsins, norrænnar samvinnu og framtíðarsýnar Norðurlandanna til 2030. Norðurlöndin væru fyrirmynd á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum og mikilvægt væri að þau héldu þeirri stöðu og gerðu enn betur. Benti hann einnig á mikilvægi verkefna á vegum Norðurskautsráðsins sem gera meðal annars úttektir á ástandi umhverfismála á svæðinu. Slík vöktun og rannsóknir væru forsenda þess að löndin gætu tekið ákvarðanir í loftslagsmálum byggðar á vísindum.
Ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tóku þátt Ine Eriksen-Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur og Krista Mikkonen umhverfisráðherra Finnlands. Umræðunum stjórnuðu ungmennafulltrúar Svíþjóðar og Finnlands gagnvart Sameinuðu þjóðunum.
Hanaholmen er menningarmiðstöð rétt fyrir utan Helsinki sem undanfarin ár hefur staðið fyrir reglubundnum viðburðum um alþjóðamál og er Hanalys árviss viðburður sem að þessu sinni fór fram með rafrænum hætti. Rúmlega 400 manns tóku þátt í málstofunni í dag.