Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ísland staðfestir samning Evrópuráðsins um aðgang að opinberum skjölum

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópuráðsins þann 10. febrúar síðastliðinn að Ísland hafi nú staðfest samning um aðgang að opinberum skjölum (e. Council of Europe Convention on Access to Official Documents, Tromsø-Convention).

Samningurinn var undirritaður af tólf aðildarríkjum Evrópuráðsins í Tromsö þann 18. júní 2009. Nú hafa alls 18 aðildarríki undirritað samninginn en utanríkisráðherra ritaði undir hann fyrir Íslands hönd í Helsinki þann 16. maí 2019. Samningurinn öðlaðist formlega gildi þegar tíu ríki höfðu staðfest hann, en það gerðist með ákvörðun Úkraínu þann 19. ágúst 2020.

Samningurinn hefur að geyma samræmdar lágmarksreglur um upplýsingarétt almennings sem samningsríkin skuldbinda sig til að virða. Um er að ræða fyrsta bindandi alþjóðasamninginn sem gengur út frá almennri meginreglu um rétt almennings til aðgangs að skjölum í vörslum opinberra aðila. Þá er í samningnum að finna reglur um málsmeðferð gagnabeiðna og rétt til að bera ákvarðanir um synjun undir úrskurðaraðila. Sérstök nefnd sérfræðinga fylgist með því hvernig samningsríkin uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Staðfesting samningsins kallar ekki á lagabreytingar, enda var upplýsingalögum breytt árið 2019, meðal annars til að uppfylla væntanlegar skuldbindingar samkvæmt samningnum, sbr. lög nr. 72/2019. Breytingarnar fólu það í sér að gildissvið laganna var víkkað út og nær upplýsingaréttur almennings nú til gagna um stjórnsýslu Alþingis og dómstóla, líkt og samningur Evrópuráðsins áskilur.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta