Ný heildstæð lög um flugvelli og flugleiðsöguþjónustu í samráðsgátt
Drög að frumvarpi að lögum um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 26. febrúar nk.
Tilgangur frumvarpsins er að setja ný heildstæð lög um flugvelli og flugleiðsöguþjónustu. Frumvarpið felur í sér einföldun regluverks og er ætlað að draga fram verkefni stjórnvalda á þessu sviði með mun skýrari hætti en í óskýrum og dreifðum lagaákvæðum sem eru í gildi. Í kynningu á frumvarpinu í samráðsgáttinni segir að skort hafi í lögum skýr ákvæði um verkefni samgönguyfirvalda á þessu sviði og þau markmiðum sem stýra eiga för við framkvæmd þeirra.
Meginmarkmið nýrra laga er að flugvellir landsins og þjónusta við flugumferð þjóni þörfum samfélagsins með skilvirkni, hagkvæmni og öryggi í fyrirrúmi í samræmi við stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, eins og hún birtist m.a. í flugstefnu og samgönguáætlun. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að Isavia ohf. annist að meginstefnu til þessi verkefni f.h. ríkisins á grundvelli þjónustusamninga.
Ný lög munu koma í stað úreltra laga og lagaákvæða á þessu sviði. Nái frumvarpið fram að ganga falla úr gildi þrenn lög um stofnun og starfsemi Isavia ohf. og verkefnin sem félagið annast fyrir hönd íslenska ríkisins; lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006, lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar nr. 76/2008 og lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009.
Almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu munu áfram fara samkvæmt lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Ný heildarlög um loftferðir eru einnig í undirbúningi og voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í vetur.