COVID-19: Spornað gegn útbreiðslu smita með hertum aðgerðum á landamærum
Öllum sem koma til landsins frá og með 19. febrúar næstkomandi verður skylt að framvísa nýlegu vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi fyrir brottför á leið til Íslands og á landamærum við komuna. Kemur sú ráðstöfun til viðbótar kröfu um tvöfalda skimun. Frá sama tíma verður þeim sem greinast með COVID-19 við skimun á landamærum skylt að dvelja í sóttvarnahúsi ef önnur viðunandi aðstaða til einangrunar er ekki fyrir hendi eða ef einstaklingur er með afbrigði veirunnar sem eru þekkt fyrir að vera meira smitandi en önnur eða valda alvarlegri veikindum. Heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun þessa efnis á fundi ríkisstjórnar í dag og er hún í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærum.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra leggur hann einnig til að horfið verði frá því að veita þeim undanþágu frá sóttvarnaráðstöfunum á landamærum sem framvísa gildu vottorði um að þeir hafi verið bólusettir gegn COVID-19. Heilbrigðisráðherra fellst ekki á þessa tillögu sóttvarnalæknis að svo stöddu og telur hana þarfnast nánari skoðunar. Reglugerð heilbrigðisráðherra sem kveður á um framvísun bólusetningarvottorða á landamærum og kröfur sem gerðar eru til þeirra svo gild teljist tók gildi 15. janúar síðastliðinn. Síðan þá hafa 57 einstaklingar framvísað bólusetningarvottorðum og af þeim vottorðum hefur 9 verið hafnað. Hertar aðgerðir forsenda tilslakana innanlands
Ráðherra tekur undir með sóttvarnalækni að staða faraldursins innanlands gefi tilefni til að slaka frekar á takmörkunum innanlands. Það býður hins vegar þeirri hættu heim að ef smit leka frá landamærum gæti ný bylgja faraldursins farið hratt af stað ef litlar takmarkanir verða á samkomum fólks innanlands. Það er því mat ráðuneytisins að rétt sé að bregðast við tillögum sóttvarnalæknis og grípa til tiltekinna ráðstafana á landamærum til viðbótar þeim sem eru nú þegar í gildi til að draga eins og unnt er úr hættunni á því að smit berist gegnum landamærin og inn í samfélagið.
Nánar um hertar aðgerðir á landamærum
Krafa um tvöfalda skimun á landamærum þar sem skimað er við komuna og aftur fimm dögum síðar að undangenginni sóttkví verður óbreytt. Eftirfarandi aðgerðir koma til viðbótar þessari kröfu.
- PCR-próf: Allir sem koma til landsins þurfa að sýna vottorð um neikvætt PCR-próf gegn SARS-CoV-2 áður en þeir stíga um borð í flugvél eða skip á leið til landsins og einnig við komuna til Íslands. Prófið verður að hafa verið tekið innan við 72 klukkustundum fyrir brottför. Einungis eru tekin gild vottorð sem eru á ensku eða einhverju Norðurlandamálanna, öðru en finnsku, og uppfylla skilyrði meðfylgjandi reglugerðar. Niðurstöður rannsóknar ber að forskrá rafrænt ásamt öðrum upplýsingum fyrir brottför á leið til Íslands.
- Sóttkví í sóttvarnahúsi: Einstaklingum með jákvæða niðurstöðu í fyrstu skimun á landamærum verður gert að dveljast í sóttvarnahúsi ef sýnt þykir að viðunandi einangrunar-/sóttkvíaðstaða sé ekki fyrir hendi. Þeim sem greinast með þau afbrigði veirunnar sem eru meira smitandi en önnur afbrigði og/eða valda alvarlegri sjúkdómi verður gert að dvelja í sóttvarnahúsi skilyrðislaust.
- Bólusetningarvottorð og vottorð vegna fyrri sýkingar af völdum COVID-19: Þeir sem framvísa gildum bólusetningarvottorðum eru undanskildir kröfu um tvöfalda skimun á landamærum og þurfa heldur ekki að skila vottorði um neikvætt PCR-próf. Sama máli gegnir um þá sem framvísa gildu vottorði vegna fyrri sýkingar af völdum COVID-19.
Nánar um bólusetningarvottorð á landamærum
Nánar um vottorð vegna fyrri sýkingar af völdum COVID-19
Fylgiskjöl: