Félagsmálaráðuneytið gerir samning við Reykjavíkurborg um þjónustu við flóttafólk
Félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa undirritað samning um samræmda þjónustu við einstaklinga sem fengið hafa alþjóðlega vernd og þá sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Með samningnum mun Reykjavíkurborg veita öllu flóttafólki sambærilega þjónustu óháð því hvort um sé að ræða kvótaflóttafólk eða einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd hérlendis. Hátt hlutfall einstaklinga sem hlotið hafa vernd býr í Reykjavík og með samningnum er Reykjavík betur í stakk búin til að þjónusta hópinn frekar. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu samninginn en um er að ræða reynsluverkefni til eins árs þar sem markmiðið er að afla frekari gagna sem hægt verður að nýta til ákvarðanatöku um áframhaldandi innleiðingu á verkefninu.
Reykjavík tekur formlega að sér að vera móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd hér á landi, og hafa þegið boð um að setjast að í móttökutökusveitarfélagi. Alls munu um 500 manns fá aukna þjónustu samkvæmt samningnum og er um að ræða félagslega ráðgjöf, húsnæðisstuðning ásamt aðstoð til einstaklinga að taka sín fyrstu skref út í samfélagið. Það er þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem mun annast framkvæmd samningsins í samstarfi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Þá mun Vinnumálastofnun sinna samfélagsfræðslu og íslenskukennslu fyrir hópinn og Fjölmenningarsetur annast stoðþjónustu.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við í félagsmálaráðuneytinu erum ánægð með þennan tímamótasamning og fögnum þessum stóru, jákvæðu skrefum í málefnum flóttafólks. Það er mikilvægt að við tökum á móti flóttamönnum með markvissum stuðningi sem hjálpar þeim að aðlagast nýju lífi og samfélagi og það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í þessum málum í Reykjavík.“
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur: „Við viljum taka vel á móti öllum nýjum íbúum Reykjavíkur og hefur starfsfólk velferðarsviðs lagt mikinn metnað í móttöku flóttafólks. Þessi samningur styður þá góðu þjónustu sem við viljum veita og gerir okkur kleift að gera þetta ennþá betur.“