Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra leggur fram aðgerðaáætlun orkustefnu

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um langtímaorkustefnu og aðgerðaáætlun sem ætlað er að framfylgja markmiðum hennar.

 

Orkustefnan felur í sér framtíðarsýn og leiðarljós í orkumálum fyrir Ísland til 2050 og byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var af ráðherra 2018 með fulltrúum allra þingflokka og fjögurra ráðuneyta. Var hún kynnt opinberlega í október sl. Sjá: www.orkustefna.is

 

Á grundvelli stefnunnar hefur á vettvangi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verið unnin aðgerðaáætlun með 38 skilgreindum aðgerðum og verkefnum sem er ætlað að framfylgja stefnunni og styðja við hana. Er sú aðgerðaáætlun nú lögð fram með skýrslu ráðherra til Alþingis sem fylgiskjal við orkustefnuna (bls. 35 og áfram).

 

Aðgerðaáætlunin fylgir fimm meginstoðum orkustefnunnar um orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, samfélag og efnahag og umhverfi. Undir hverri meginstoð er að finna skilgreind verkefni og aðgerðir, stöðu hverrar aðgerðar og tengingu hennar við texta orkustefnu.

 

Sem dæmi um aðgerðir má nefna að stutt verði við uppbyggingu vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu, endurbætur gerðar á regluverki um framkvæmdir, raforkuöryggi skilgreint í lögum, viðmið sett um dreifða framleiðslu og flutningsgetu milli landshluta í þágu orkuöryggis, betri yfirsýn fáist yfir jafnvægi framboðs og eftirspurnar raforku, sviðsmyndir unnar um orkuskipti á hafi, möguleikar Íslands til að verða leiðandi í orkuskiptum í flugi greindir, tækifæri til nýtingar glatvarma kortlagðar, leyfisveitingar einfaldaðar vegna uppfærslu á eldri virkjunum, dreifikostnaður raforku jafnaður um landið og breytingar gerðar á regluverki flutnings- og dreififyrirtækja með aukna hagkvæmni og lægra verð til neytenda að leiðarljósi. Sumar aðgerðirnar eru þegar komnar vel á veg.

 

„Ein stærstu tíðindi orkustefnunnar er markmiðið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi 2050 og að mínu mati eigum við að stefna að því að ná því markmiði fyrst allra landa. Það er ekki bara stórt umhverfismál heldur líka stórt efnahagsmál,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

 

„Markmiðið um sjálfbæra orkuframtíð er stórt og kallar á fjölmargar aðgerðir sem hrinda þarf í framkvæmd. Það er von mín að með þeirri aðgerðaáætlun sem ég hef nú lagt fram sé búið að varða veginn með skýrum hætti til að uppfylla þá metnaðarfullu framtíðarsýn fyrir Ísland sem fram kemur í orkustefnunni,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Orkustefnu og aðgerðaáætlunina má finna hér .

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta