Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Starfsemi Laugalands skoðuð

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verði falin umsjá þess að kanna hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007 hafi sætt illri meðferð, andlegu  eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra á meðferðarheimilinu stóð.

Félags- og barnamálaráðherra hefur í tvígang fundað með konum sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu og ákvað í kjölfarið af þeim fundum að fela Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar að fara í saumana á starfseminni. Mun Gæða- og eftirlitsstofnun fara yfir öll tiltæk gögn málsins auk þess að taka viðtöl við alla hlutaðeignandi aðila málsins – þá einstaklinga sem vistaðir voru á meðferðarheimilinu, rekstraraðila og starfsmenn heimilisins ásamt ráðgjafa sem önnuðust málefni barnanna. Niðurstaða stofnunarinnar mun móta grundvöll að frekari viðbrögum stjórnvalda.

Eftirlit með meðferðarheimilum Barnaverndarstofu var fært undir Gæða- og eftirlitstofnun félagsþjónustu og barnaverndar árið 2018. Frekari upplýsingar um Gæða- og eftirlitsstofnun má finna á vef stofnunarinnar. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta