Ráðherra fagnar áhuga Grænlendinga á aukinni samvinnu
Tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands og niðurstöður skoðanakönnunar sem gefa til kynna að 90% Grænlendinga styðji aukna samvinnu við Ísland voru á meðal umræðuefna í opnunarávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á rafrænum fundi Hringborðs norðurslóða - Arctic Circle í dag.
Efnt var til fundarins í tilefni af útgáfu skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í janúar síðastliðnum.
Í erindi sínu ræddi Guðlaugur Þór um nýja skoðanakönnun sem var gerð af Grænlandsháskóla, Ilisimatusarfik, í samstarfi við HS Analyse í Nuuk og Norðurlandadeild Konrad-Adenauer Stiftung í Stokkhólmi. Könnunin er sú fyrsta sem mælir viðhorf Grænlendinga til utanríkismála og í henni birtist mikill stuðningur þeirra við aukið samstarf við Ísland, ekki síst í samanburði við aðrar þjóðir.
„Ég er sannfærður um að áhuginn er síst minni hér á Íslandi,“ sagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Guðlaugur Þór lagði einnig áherslu á sameiginlega hagsmuni þjóðanna og mikilvægi náinnar samvinnu Grænlands og Íslands, sér í lagi á tímum loftslagsbreytinga þar sem sérstaða Grænlands er mikil.
„Það eru spennandi tímar framundan í tvíhliða samskiptum Íslands og Grænlands og víðtækir möguleikar til samstarfs sem mun styrkja báðar þjóðir,“ sagði Guðlaugur Þór.
Össur Skarphéðinsson, formaður Grænlandsnefndarinnar, flutti einnig erindi og svaraði spurningum.