Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Kanna kosti þess að koma Svæðisgarði Snæfellsness á lista UNESCO ​

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og formaður stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi, Björg Ágústsdóttir, við undirritunina. - myndSigurður Á. Þráinsson

Skoðað verður hvort landsvæði Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi verði tilnefnt á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og formaður stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi, Björg Ágústsdóttir, undirrituðu í dag samkomulag í gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki um forathugun á slíkri tilnefningu. Um er að ræða lista á vegum UNESCO undir heitinu Maður og lífhvolf (e. Man and Biosphere). Verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarið ár og ráðgert er að því ljúki í vor.

Í dag eru 714 svæði í 129 löndum um allan heim skráð sem lífhvolfssvæði og ná sum þessara svæða þvert á landamæri ríkja. Verkefnið var sett á laggirnar árið 1971 og miðar að því að styrkja tengsl milli fólks og umhverfis á grunni vísindalegrar þekkingar.

Verkefnið sem skrifað var undir í dag felur í sér að kanna, kortleggja og safna saman upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru talin til þess að meta kosti og galla við að tilnefna landsvæði Svæðisgarðsins til UNESCO, m.a. kortlagningu mögulegrar afmörkunar og skiptingar svæðisins. Svæðisgarðurinn tekur til fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi sem svæðisskipulag Snæfellsness nær til og tekur eingöngu til landsins, en ekki hafsvæðisins þar fyrir utan.

Í kjölfar forathugunar skapast færi á að skoða og meta, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem fer með málefni UNESCO hér á landi, hvort farið verði í að tilnefna svæðið til UNESCO.

Áhersla á samstarf og sjálfbæra þróun

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa lengi lagt ríka áherslu á samstarf og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum samfélagsins. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður af sveitarfélögunum fimm, frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum í atvinnulífi árið 2014. Svæðisgarðurinn er farvegur fyrir samstarf á svæðinu og byggir á sameiginlegri sýn á hagnýtingu og verndun svæðisins, sem sett er fram í Svæðisskipulagi Snæfellsness.  Að auki hefur Snæfellsnes hlotið umhverfisvottun EarthCheck fyrir samfélög í rúman áratug. Vottunin er staðfesting á því að sveitarfélögin vinna að bættri frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum og er hún endurnýjuð árlega með óháðu mati vottunaraðila.

Markmiðið með starfi UNESCO undir hattinum „Maður og lífhvolf“ er að tengja saman náttúru- og félagsvísindi við efnahagsmál, vísindarannsóknir og menntun í þeim tilgangi að bæta afkomu manna, jafna skiptingu náttúrulegra gæða og vernda vistkerfi. Lögð er áhersla á skynsamlega og sjálfbæra nýtingu og verndun náttúru og auðlinda lífhvolfssvæða í því skyni að bæta samband manna við umhverfi sitt.

Þá er með alþjóðlegu kerfi lífhvolfssvæða miðað að því að ákvarða og meta breytingar á lífhvolfinu af völdum manna og náttúrulegra atburða og áhrif slíkra breytinga á menn og umhverfi, meðal annars í tengslum við loftslagsbreytingar.

Yrði fyrsta íslenska lífhvolfssvæðið

,,Snæfellingar hafa áður sýnt frumkvæði í umhverfis- og náttúruverndarmálum, t.d. með Earth Check og stofnun þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á sínum tíma. Það er í góðu samræmi við þær áherslur í umhverfismálum sem lagðar hafa verið á Snæfellsnesi um langa hríð að skoða fýsileika þess að taka þátt í þessu spennandi UNESCO-verkefni. Komi til þess þá yrði Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi fyrsta slíka svæðið hérlendis. Með þátttöku í verkefninu geta skapast mikil tækifæri fyrir samfélagið á Snæfellsnesi, ekki síst sem aðdráttarafl í ferðamennsku, efla þekkingu á samspili manns og náttúru. Slíkt ætti að skila sér í aukinni sjálfbærni til lengri tíma, meðal annars með því að sækja þekkingu til annarra lífhvolfssvæða í heiminum sem taka þátt í þessu starfi UNESCO. Ég hlakka til að sjá niðurstöður forathugunarinnar á komandi vori“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritunina í dag.

  • $alt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta