Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Krabbameinsskimun í heilsugæslunni: Gott aðgengi, lægri gjaldtaka, öruggar rannsóknir

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins  - mynd

Ný rannsóknaraðferð, þ.e. HPV frumuskimun var tekin upp hér á landi um áramótin þegar ábyrgð á framkvæmd reglubundinnar skimunar fyrir leghálskrabbameini færðist til heilsugæslunnar. Síðar á þessu ári er gert ráð fyrir að sjálftökupróf verði einnig liður í skimunum hér á landi en markmiðið með því er að ná til kvenna sem annars mæta sjaldan í skimun. Góð þátttaka í skimun er forsenda árangurs. Þess er vænst að greitt aðgengi að þessari þjónustu í heilsugæslunni og lágur kostnaður fyrir notendur muni auka þátttöku í skimunum hér á landi. Þátttakan hefur verið innan við 70% á liðnum árum en stefnt er að því að hún verði um eða yfir 85% þegar fram líða stundir. Fjallað er um breytt fyrirkomulag þessara skimana í nýjum pistil á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar er einnig fjallað um samninginn við rannsóknarstofu sjúkrahússins Hvidovre í Kaupmannahöfn sem annast nú rannsóknir á leghálssýnum fyrir Ísland og aðdragandann að gerð þess samnings.

Búið að greina nær öll sýni sem tekin voru fyrir áramót

Rannsóknarstofa sjúkrahússins í Hvidovre hefur nú lokið greiningu nær allra þeirra sýna sem fóru ógreind frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar heilsugæslan tók við ábyrgð á framkvæmd skimana um áramótin. Nánar er sagt frá þessu á vef heilsugæslunnar.

Samhæfingarstöð krabbameinsskimana 

Samhæfingarstöð krabbameinsskimana veitir upplýsingar um framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum, boðun og tímapantanir. Eins og þar kemur fram er konum á Íslandi boðin skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi í samræmi við skimunarleiðbeiningar embættis landlæknis.  Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Konum er boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23 til 29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30 til 65 ára. Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er forvörn sem býðst einkennalausum konum. Konum með einkenni frá brjóstum og kvenlíffærum er ráðlagt að leita til læknis. Samhæfingarstöð krabbameinsskimana heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta