Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Úr kyrrstöðu í sókn


Framfarir í fjarskiptum einkenna einna helst samfélagabyltingu síðustu ára. Almenningur er sítengdur við fjarskiptakerfi, gengur með símtæki og heldur um leið á öflugum margmiðlunartölvum til daglegra nota. 

Íslenskt samfélag styðst við marga grundvallarinnviði sem að verulegu leyti má rekja til aðildar okkar að varnarsamstarfi innan Atlantshafsbandalagsins. Fjárfestingar í varnarmannvirkjum hafa ekki aðeins þýðingu fyrir þjóðaröryggi heldur eru margháttuð borgaraleg not af þeim grundvöllur að því nútímasamfélagi sem við þekkjum í dag. Í því sambandi má til dæmis nefna hlutverk ratsjár- og fjarskiptastöðvanna í borgaralegri flugleiðsögu. 

Tvöfalt hlutverk innviða

Uppbygging fjarskiptainnviða vegna þessara stöðva er annað dæmið um ávinning sem landsmenn hafa haft af þessu samstarfi. Lagning stofnljósleiðara Atlantshafsbandalagsins hringinn um landið fyrir um þremur áratugum þýddi í raun að um allt land var byggt upp nútímalegt fjarskiptakerfi sem enn í dag er hryggjarstykkið í fjarskiptum þjóðarinnar. Ekki er óvarlegt að segja að hagsæld okkar sem þjóðar megi að talsverðu leyti rekja til samstarfsins og þess Íslands sem við þekkjum í dag.

Góð útbreiðsla nútímafjarskipta um land allt byggist þannig á borgarlegum notum af mannvirki sem í grunninn er tilkomið vegna varnarsamstarfs. Samhliða því var fjárfesting Póst- og símamálastofnar möguleg í landshring fjarskipta á seinni hluta síðustu aldar.

Samkeppni á fjarskiptamarkaði

Árið 2008 var stigið skref til að auka enn á samkeppni um fjarskipti með útboði á hluta af ljósleiðaraþráðum í stofnhringtengikerfinu. Það skref stuðlaði að enn frekar samkeppni á almennum fjarskiptamarkaði. Frá árinu 2008 hefur orðið margföldun á gagnamagni og notkun á fjarskiptum. Nú þegar tólf ár eru liðin frá síðasta útboði var því rétt og nauðsynlegt að rýna hvernig efla mætti enn kraft samkeppninnar til hagsbóta fyrir íbúa landsins.

Árið 2021 er lokaár átaksins „Ísland ljóstengt“, átaksverkefnis stjórnvalda um bættar fjarskiptatengingar í dreifbýli. Lengi höfðu sveitir landsins setið eftir í byggingu öflugra tenginga. Síðan átakið hófst hafa um 6.500 heimili og fyrirtæki fengið hraðvirkar tengingar. Það dregur hins vegar fram aðstöðumun að margir þéttbýlisstaðir og minni byggðalög hafa ekki fengið samsvarandi úrbætur. Regluverk fjarskipta er samkeppnisdrifið og ekki einfalt að stíga inn í það með beinum hætti eins og mögulegt var í dreifbýlinu. Að stofni til er Míla, að hluta arftaki Landssíma Íslands, sá aðili sem í dag rekur meginstofnkerfi íslenskra fjarskipta. 

Útboð ljósleiðaraþráða 

Í nýútkominni skýrslu starfshóps utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um ljósleiðaramál og útboð ljósleiðaraþráða er varpað ljósi á enn frekari nýtingarmöguleika þessara fjarskiptainnviða. Það er megintillaga starfshópsins að leggja til útboð á tveimur ljósleiðaraþráðum bandalagsins, í stað eins, til reksturs stofntenginga. Inn í það fléttast síðan kröfur um fjarskipta- og netöryggi. Það er réttmætt og eðlilegt sjónarmið að eigandi þeirra þráða sem um ræðir leggi áherslu á að búnaður og aðgengi að þessum innviðum séu í samræmi við þarfir og viðmið. Um er að ræða grundvallarþátt íslenskra fjarskipta og það skiptir okkur höfuðmáli að við sýnum fyllstu ábyrgð á öryggi fjarskipta.

Varðandi rekstraröryggi fjarskipta leggur starfshópurinn fram greiningu sem getur undirbyggt enn frekari aðgerðir, hvort sem horft er til hagsmuna almennings eða vegna þjóðaröryggis og aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Með tiltölulega litlum og hagkvæmum framkvæmdum má enn bæta og efla fjarskiptakerfi okkar um allt land.  

Með aukinni samkeppni skapast grundvöllur til sóknar að bættum fjarskiptum í bæjum og þorpum á landsbyggðinni. Það er árangursríkasta leiðin að því að verða sítengd og í stöðugu sambandi.

Grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Haraldar Benediktssonar alþingismanns birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta