Guðlaugur Þór opnaði fund Útflutnings- og markaðsráðs
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra opnaði fund Útflutnings- og markaðsráðs í gær sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica. Í ávarpi sínu undirstrikaði ráðherra mikilvægi undirbúningsvinnu undanfarinna mánaða við að koma útflutningsgreinunum aftur á skrið.
Yfirskrift fundarins var framkvæmd útflutningsstefnunnar og staða íslenskra útflutningsgreina á tímum heimsfaraldurs. Á fundinum var farið yfir þróun útflutningsgreina þjóðarinnar frá því að heimsfaraldurinn skall á auk þess sem gerð var grein fyrir yfirliti aðgerða á áherslusviðum útflutningsstefnunnar.
„Sú vinna og áætlanagerð sem við höfum ráðist í síðustu misseri mun skipta sköpum í viðspyrnu okkar nú þegar við sjáum fyrir endann á þessum ósköpum sem yfir okkur hafa dunið,“ segir Guðlaugur Þór, sem jafnframt er formaður Útflutnings og markaðsráðs.
„Þótt ýmsir þættir horfi nú öðruvísi við en þeir gerðu fyrir ári síðan þá byggjum við viðspyrnuna á þeirri greiningu og þeim undirbúningi sem Útflutnings- og markaðsráð hefur staðið fyrir,“ segir ráðherra enn fremur.
Guðlaugur Þór tók einnig þátt í pallborðsumræðunum eftir fundinn ásamt Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Pétri Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, og Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins. Bergþóra Halldórsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, stýrði umræðunum.
Til máls tóku einnig Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu.
Árið 2018 samþykkti Alþingi ný lög um Íslandsstofu þar sem er meðal annars kveðið á um að útflutnings- og markaðsráð skuli starfrækt. Samkvæmt lögunum skipar utanríkisráðherra 31 fulltrúa í ráðið til fjögurra ára í senn. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er sjálfur formaður ráðsins, en auk hans skulu ráðherrar sem fara með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköpunar, mennta- og menningarmál og umhverfis- og auðlindamál ásamt fulltrúum þingflokka utan ríkisstjórnar á hverjum tíma eiga sæti í ráðinu.
Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Ráðið skal taka til umfjöllunar tillögur að verkefnum sem unnin eru í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda og tryggja að slík verkefni falli að markaðri langtímastefnu. Ráðið getur skipað starfshópa úr ráðinu um afmörkuð verkefni og skal Íslandsstofa vera þeim til ráðgjafar.