Ráðherra skoðar innviðaframkvæmdir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skoðaði í vikunni framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöð og gestastofu á Hellissandi og nýlegar framkvæmdir við göngustíga og útsýnispalla í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.
Mikill gangur er í framkvæmdunum við þjóðgarðsmiðstöðina sem verður um 700 m2 að flatarmáli og mun hýsa sýningu, skrifstofur og aðra aðstöðu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Kostnaður við gerð miðstöðvarinnar nemur ríflega 600 milljónum króna. Gestum þjóðgarðsins hefur farið ört fjölgandi undanfarin ár og sækir nú um hálf milljón gesta þjóðgarðinn heim árlega. Á síðasta ári heimsóttu um 200 þúsund gestir þjóðgarðinn, langflestir Íslendingar, þar sem fáir erlendir ferðamenn komu til landsins vegna aðstæðna.
Gestum fjölgar um 20-30% á ári
Ráðherra var á ferð á Snæfellsnesi á miðvikudaginn þar sem hann undirritaði, ásamt Björgu Ágústsdóttur, formanni stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi, samkomulag um forathugun á því hvort landsvæði Svæðisgarðsins verði tilnefnt á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Um er að ræða lista á vegum UNESCO undir heitinu Maður og lífhvolf (e. Man and Biosphere) sem miðar að því að styrkja tengsl milli fólks og umhverfis á grunni vísindalegrar þekkingar.
Ferðina nýtti ráðherra einnig til að skoða framkvæmdir sem styrktar eru af Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Komið var við á Djúpalónssandi og skoðaður hlaðinn göngustígur sem er sérstaklega lagaður að landslaginu og á Svalþúfu til að skoða nýjan útsýnispall. Þá heimsótti ráðherra gestastofuna á Malarrifi. Þar hefur verið unnið að framkvæmdum við bílastæði og aðra aðstöðu við gestastofuna, en gestum þar hefur fjölgaði um 20-30% á ári undanfarin ár, ef undan er skilið árið 2020. Eins kom ráðherra við á Saxhóli og skoðaði tröppustíginn, sem hlaut hin alþjóðlegu Rosa Barba landslagsarkitektúrverðlaun árið 2018.
Í lok heimsóknarinnar kastaði ráðherra kveðju á þátttakendur á rafrænum íbúafundi um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, en unnið er að stækkun hans.
Um 300 milljónir í framkvæmdir á Snæfellsnesi
Fjármagni var fyrst úthlutað á grundvelli Landsáætlunar um uppbyggingu innviða árið 2018 en frá þeim tíma og næstu ár er gert ráð fyrir hátt í 300 milljónum króna í framkvæmdir á svæðinu. Rúmlega 54 milljónum var varið í framkvæmdir á Snæfellsnesi í fyrra. Gert er ráð fyrir 84 milljónum í verkefni á svæðinu á þessu ári m.a. í salerni og frekari endurbætur á göngustígum við Djúpalónssand, gerð göngupalla og akstursleiðar við Saxhól, og uppsetningu skilta víða um þjóðgarðinn.
Með ráðherra í för voru fulltrúar í ráðgjafarnefnd um þjóðgarðinn: Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunnar og Margrét Björk Björnsdóttir forstöðumaður Vesturlandsstofu, ásamt starfsfólki þjóðgarðsins, en hjá honum starfa þrír fastir starfsmenn á ársgrundvelli.
Gleðilegt að sjá gestastofuna rísa hratt
„Á komandi sumri verða 20 ár frá því að þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður. Það er virkilega gaman að sjá hversu vel hefur til tekist í uppbyggingu innviða á svæðinu. Gestastofa þjóðgarðsins á Hellissandi hefur verið á teikniborðinu í langan tíma og gleðilegt að sjá hana rísa hratt þessa dagana og finna eftirvæntinguna í samtölum mínum við heimafólk. Fjárfesting í náttúruvernd er fjárfesting í jákvæðri byggðaþróun, fjárfesting til framtíðar. Náttúran skartaði sínu fegursta hvar jökulinn sjálfan bar við himinn. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er sannkölluð perla sem alltaf er jafn gaman að heimsækja og við getum verið mjög stolt af uppbyggingunni innan hans,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.