Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Svör við spurningum þriggja lækna um krabbameinsskimanir

Svör við spurningum þriggja lækna um krabbameinsskimanir - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðuneytið birtir hér með svör við sjö tölusettum spurningum þriggja lækna til heilbrigðisráðherra varðandi krabbameinsskimanir sem birtust í grein eftir þá í Morgunblaðinu í gær. Svörin veita meðal annars upplýsingar um aðdraganda þess að samið var við rannsóknarstofu sjúkrahússins í Hvidovre í Danmörku um úrlestur sýna, en eins og fram kemur m.a. í meðfylgjandi svörum sá Landspítali ýmis tormerki á því að sinna þeirri þjónustu og taldi „ekki ástæðu til að óska eftir að sinna þessari rannsóknarstarfsemi“ eins og segir í svarbréfi spítalans við erindi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar eftir þessu var leitað.

Eftirfarandi eru spurningar læknanna þriggja, þeirra Önnu Margrétar Jónsdóttur, Ísleifs Ólafssonar og Þorbjörns Jónssonar, sem þeir beindu til heilbrigðisráðherra, og svör ráðuneytisins fyrir hönd ráðherra við þeim. Rétt er að geta þess að flestum þessara spurninga hefur þegar verið svarað á öðrum vettvangi, bæði af hálfu heilbrigðisráðherra og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

1. Hvaða aðili eða stofnun ákvað að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum skyldu gerðar erlendis og hvenær var þetta ákveðið?
Svar: Eins og fram kemur í pistli á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 24. feb. sl. hefði heilsugæslan kosið að rannsóknir á sýnum úr leghálsskimunum færu fram hér á landi. Möguleikinn á því var kannaður sérstaklega með erindi heilsugæslunnar til yfirlæknis meinafræðadeildar Landspítala, dags. 22. júlí sl. þar sem m.a. var óskað eftir áætlun um verð fyrir rannsókn á hefðbundnum frumusýnum á meinafræðideildinni. Í svari spítalans við erindinu, dags. 12. ágúst 2020 segir um þetta: 

„Meinafræðideild LSH hefur aldrei haft til rannsóknar/greininga frumusýni úr leghálsi í tengslum við skimun fyrir leghálskrabbameini. Því er ekki til staðar raunhæf gjaldskrá fyrir slík sýni á deildinni.
Slík starfsemi er allnokkuð frábrugðin starfi á meinafræðideild LSH, þarfnast sérhæfðs starfsfólks (sérmenntaðra lífeindafræðinga (screenera) og frumumeinafræðinga) og mjög sérhæfðs tækjabúnaðar auk viðeigandi húsnæðis. Mjög lítið af þessu er til staðar á meinafræðideildinni og verður að segjast að við teljum ekki ástæðu til að óska eftir að sinna þessari rannsóknarstarfsemi. Því munum við ekki fara út í kostnaðargreiningu slíkra sýna til að svara flókinni fyrirspurn þinni varðandi slíkar rannsóknir.“ 

Í framhaldi af svari Landspítala áttu fulltrúar HH jafnframt fund með þremur fulltrúum Landspítala um málið þar sem innihald bréfsins og áður tilvitnað svar var staðfest að hálfu spítalans.

2. Hvaða aðili ákvað að semja við rannsókn
arstofu í Hvidovre í Danmörku? Var leitað eftir tilboðum frá öðrum aðilum?

Svar: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gekk til samninga við rannsóknarstofu sjúkrahússins í Hvidovre að undangengnu samráði um málið við heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherra veitti HH umboð til að ganga til samninga um verkefnið við Hvidovre til þriggja ára.

Óskað var eftir upplýsingum um verð vegna greiningar á hefðbundnum frumusýnum annars vegar og HPV mælinga hins vegar, frá Landspítala, Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og Hvidovre sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir áður tilvitnað svar í meinafræðideild Landspítala var því svarað hvað áætla mætti að greining hefðbundinna frumusýna myndi kosta. Í svarinu voru gerðir fyrirvarar um það hvort rannsóknastofan gæti tekið við því verkefni um áramótin, bæði varðandi mönnun, aðstöðu og tækjakost. Eins var í svari spítalans gert ráð fyrir því að hefðbundin frumusýni yrðu um 27.000 á ári, líkt og undanfarin ár, þótt þá hafi legið fyrir að árlegur fjöldi yrði þegar á þessu ári um 8.000. Einingarverðið fyrir greiningu hefðbundinna frumusýna hjá Landspítala var allt að tvöfalt hærra en hjá rannsóknarstofum erlendu sjúkrahúsanna tveggja og fram kom af hálfu Landspítala að í áætluninni væri stofnkostnaður undanskilinn. 


3. Hvað kostar langtímasamningur við dönsku rannsóknarstofuna? Hefur sá samningur verið undirritaður, ef svo er, hvenær var það gert?
Svar:  Samkvæmt samningnum við rannsóknarstofu sjúkrahússins í Hvidovre er einingaverð fyrir rannsókn hvers sýnis um 3.200 íslenskar krónur. Heildarkostnaður við samninginn ræðst af þátttöku kvenna og þar með fjölda sýna.

4. Hver hefur aðkoma Sjúkratrygginga verið að samningagerðinni við dönsku rannsóknarstofuna? Hvílir ef til vill útboðsskylda á svona stórum samningi um læknisþjónustu við erlendan aðila?
Svar: Heilbrigðisráðherra fól Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skimunarverkefnið og þar með að gera samning um rannsóknir á sýnum en leitað var aðstoðar Sjúkratrygginga Íslands við samningsgerðina. Verkefnið var ekki talið útboðsskylt.

5. Telur heilbrigðisráðherra að gæðum og öryggi lækningarannsókna á Landspítalanum sé ábótavant? 
Svar: Nei, en eins og fram er komið taldi meinafræðideild Landspítala ekki ástæðu til að sækjast eftir því að sinna úrlestri hefðbundinna frumusýna og rökstuddi þá niðurstöðu í bréfi til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. ágúst 2020. 

6. Má búast við því að yfirvöld hafi forgöngu um það að fleiri lækningarannsóknir verði færðar frá Íslandi til útlanda í framtíðinni? 
Svar: Það er ákjósanlegt að lækningarannsóknir fari fram hér á landi, að því gefnu að faglegar og fjárhagslegar forsendur séu til þess að sinna henni. Þess ber að geta að ýmis heilbrigðisþjónusta við landsmenn er veitt erlendis á grundvelli samninga og til að mynda er Landspítali með samninga við þýska rannsóknastofu um ýmsar mælingar sem ekki eru gerðar hérlendis og einnig er leitað til hinna Norðurlandanna í sama skyni.

7. Hvert verður aðgengi íslenskra lækna að leghálssýnum þegar og ef klínísk þörf verður á frekari rannsóknum?
Svar: Sýnin sem rannsóknarstofa sjúkrahússins í Hvidovre rannsakar fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru eign heilsugæslunnar. Kveðið er á um geymslu þeirra, aðgang og endurskoðun á sýnunum þegar þess er þörf í samningi. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta