Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillaga að friðlýsingaskilmálum þjóðgarðs á Vestfjörðum

Geirþjófsfjörður - mynd

Umhverfisstofnun hefur lagt fram tillögu að friðlýsingaskilmálum fyrir þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum ásamt tillögu að mörkum svæðisins. Tillagan er kynnt í samvinnu við samstarfshóp sem vinnur að undirbúningi friðlýsingar.

Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita einstakt svæði fyrir komandi kynslóðir. Með friðlýsingunni verður til heildstætt svæði sem hefur að geyma ómetanlega sögu, náttúru- og menningarminjar.

Svæðið nær meðal annars til fossins Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar og Hrafnseyrar. Í september 2019 færði RARIK íslenska ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf. Við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt væri að frekari friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði. Jarðirnar sem um ræðir eru allar í sameign þjóðarinnar fyrir utan jörðina Langa-Botn í Geirþjófsfirði, sem er í eigu Landgræðslusjóðs.

Kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en miðhálendi Íslands. Innan marka þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum myndu verða nokkur þegar friðlýst svæði. Dynjandi er meðal hæstu fossa landsins og var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1981. Vatnsfjörður var friðlýstur árið 1975 sem friðland, en þar má finna mikla gróðursæld, fjölbreytt dýralíf og jarðhita, ásamt menningarminjum. Surtarbrandsgil, hvar finna má steingerðar leifar gróðurs, var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Þá er eyðifjörðurinn Geirþjófsfjörður, sem var sögusvið Gísla sögu Súrssonar, á náttúruminjaskrá. Á Hrafnseyri í Arnarfirði, sem var fæðingastaður Jóns Sigurðssonar forseta, er fræðslusetur tileinkað ævi og minningu hans.

,,Ísland býr yfir einstökum náttúruverðmætum hvert sem litið er. Og þar sem náttúrugæðanna nýtur við þrífst mannlífið með tilheyrandi sögu og menningu. Á því svæði sem nú er til skoðunar að gera að þjóðgarði kemur nefnilega allt saman; kyngimögnuð náttúra frá hafi til fjallstoppa og menningarsaga frá upphafsárum byggðar í landinu. Fyrsta vor landnámsmannsins Hrafna-Flóka, sem nam land í Vatnsfirði, var að sögn kalt og því gaf hann landinu nafnið Ísland. Síðar fæddist sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson á Hrafnseyri við Arnarfjörð og Íslendingar völdu sér fæðingardag hans sem þjóðhátíðardag. Mér finnst mjög viðeigandi að við stofnum þjóðgarð til verndar þessu svæði fyrir komandi kynslóðir og búum í leiðinni til tækifæri til sjálfbærrar atvinnusköpunar á svæðinu“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 26. maí nk. en frekari upplýsingar um undirbúning friðlýsingarinnar er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta