Hoppa yfir valmynd
4. mars 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Grænn dregill og iðngarðar efli græna nýfjárfestingu

 Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt þeim  Kristjáni Þór Magnússyni, sveitastjóra Norðurþings, Pétri Óskarssyni, framkvæmdastjóra Íslandsstofu og Ríkarði Ríkarðssyni, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, undirritaði í dag samstarfssamninga um tvö verkefni sem bæði hafa það markmið að efla græna nýfjárfestingu í atvinnulífinu: Græna dregilinn og Græna iðngarða.

Græni dregillinn er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (ANR) og Íslandsstofu, mótað í víðtæku samráði við atvinnuþróunarfélög allra landshluta, þar sem markmiðið er að bæta þjónustu og umhverfi nýfjárfestingaverkefna og gera ferla samfelldari, einfaldari og skilvirkari, allt frá hugmynd að rekstri. Með þessu er verið að fylgja eftir ítarlegri stefnumótun stjórnvalda á sviði útflutnings, nýsköpunar og orkumála og auka verðmætasköpun og fjölga störfum með sjálfbærum hætti.

Einn af hvötum verkefnisins er samkeppnisstaða Íslands gagnvart nágrannaríkjum sem lagt hafa mikla áherslu á að laða til sín eftirsóknarverð fjárfestingaverkefni með áherslu á sjálfbærni, oft með góðum árangri. Að verkefninu koma, auk ANR, Íslandsstofu og atvinnuþróunarfélaganna, Samband íslenskra sveitarfélaga og fulltrúar ráðuneyta og lykilstofnana sem koma að ferli fjárfestingaverkefna.

Stýrihópur verkefnisins hefur það hlutverk að skila stjórnvöldum tillögum að umbótum og halda sameiginlega utan um samræmda upplýsingagjöf og þjónustu við verkefni sem falla undir Græna dregillinn.

Græni dregillinn leggur áherslu á að undirbúa atvinnusvæði svo þar sé hægt að fullnýta auðlindastrauma og efla hringrásarhagkerfið. Þar er vísað til þess að ýmislegt fellur til í rekstri eins fyrirtækis, sem getur nýst sem hráefni annars fyrirtækis. Um leið er stefnt að því að einfalda fjárfestingarferla og markaðssetja tækifæri víða um land á markvissan hátt.

Grænir iðngarðar

Mikil samlegðaráhrif eru með ofangreindu verkefni og samstarfsverkefni ANR, Íslandsstofu, Landsvirkjunar og Norðurþings um tækifæri Íslands á sviði grænna iðngarða, en eins og komið hefur fram eru Landsvirkjun og Norðurþing þegar að kanna uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka við Húsavík. Til að hámarka þá samlegð og draga fram tækifæri til uppbyggingar grænna iðngarða og hringrásarlausna víða um land var ákveðið að efna til sameiginlegs verkefnis þar sem ANR og Íslandsstofa taka virkan þátt. Greining á samkeppnisstöðu Íslands og almennum skilyrðum til uppbyggingar grænna iðngarða nýtist öllum áhugasömum aðilum.

Fyrir lok júní á eftirfarandi að liggja fyrir:

  • Almenn skýrsla um tækifæri Íslands á sviði grænna iðngarða m.a. með hliðsjón af þróuninni í öðrum löndum.
  • Yfirlit yfir rekstrarumhverfi, fjármögnunarmöguleika, ferla og lagaramma um græna iðngarða og tillögur til stjórnvalda um umbótaverkefni.
  • Forkönnun á aðstæðum og tækifærum á Bakka við Húsavík fyrir grænan iðngarð.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: 
„Með þessum verkefnum stuðlum við að sterkari samkeppnisstöðu Íslands gagnvart nágrannaríkjunum og fylgjum eftir áherslum okkar og stefnumótun í nýsköpun, orkumálum og auðvitað sjálfbærni af fullum þunga.“

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu:
„Ísland á í síharðnandi samkeppni við önnur lönd og svæði um nýfjárfestingar og við sjáum að áherslan á sjálfbærni og einfalt og skilvirkt fjárfestingaumhverfi skilar árangri. Við fögnum því sérstaklega ríkum áhuga stjórnvalda á þessu verkefni og víðtækum stuðningi við eflingu grænna fjárfestinga.“

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun, segir að vonandi verði grænn iðngarður á Bakka góð fyrirmynd í framtíðinni:
„Landsvirkjun er þegar í samstarfi við ýmsa aðila um fullnýtingu þeirra auðlindastrauma sem falla til við jarðvarmavinnslu okkar. Við teljum að grænir iðngarðar geti orðið til þess að auka samkeppnishæfni minni fyrirtækja í orkutengdri framleiðslu, aukið nýsköpun og hvatt til aukinnar verðmætasköpunar.“

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir að:
„Uppbygging græns iðngarðs á Bakka þar sem fyrirtæki geta haslað sér völl og lagt áherslu á sjálfbærni með hugmyndir hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi sé eftirsóknarverð framtíðarsýn. Mjög mikilvægt sé að ná að fullnýta þá innviði sem nú þegar eru á svæðinu. Í Norðurþingi horfum björtum augum til framtíðar m.t.t. atvinnu- og verðmætasköpunar í okkar sveitarfélagi og hlökkum til að leggja okkar að mörkum í þessu samstarfsverkefni, sem vonandi getur orðið til þess að fjárfesting í grænum iðnaði aukist á landinu öllu næstu árin.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta