Hoppa yfir valmynd
4. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Rafrænir fylgiseðlar með lyfjum teknir í notkun

Tilraunaverkefni sem heilbrigðisráðuneytið efndi til um notkun rafrænna fylgiseðla með lyfjum er  hafið. Verkefnið einskorðast við notkun rafrænna fylgiseðla með tilteknum H-merktum lyfjum sem eingöngu eru ætluð til notkunar á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Markmiðið er að meta hvort það að nota rafræna fylgiseðla eingöngu, tryggi með fullnægjandi hætti örugga lyfjameðferð sjúklings og jafnframt hvort notkun þeirra geti leitt til þess að H-merktum lyfjum á markaði fjölgi.

Lyfjastofnun auglýsti eftir þátttakendum í verkefninu og var óskað eftir umsóknum sem tækju til lyfja sem þegar væru á markaði. Núna hefur verið opnað á umsóknir fyrir þátttöku lyfja ekki eru á markaði og uppfylla skilyrði. Vonir standa til að lyf sem fá þátttöku í verkefninu fjölgi í kjölfarið en nú eru 26 lyf með markaðsleyfi skráð í verkefnið.

Innleiðing rafrænna fylgiseðla með lyfjum er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og einnig eitt af markmiðum ályktunar Alþingis um lyfjastefnu. Ísland hefur leitt samstarf Norðurlandaþjóða sem sameiginlega hafa lagt til við Evrópusambandið að reglur verði endurskoðaðar þannig að þeim aðildarríkjum sem vilja og geta verði heimilt að nota rafræna fylgiseðla í staðinn fyrir prentaða fylgiseðla eins og nú er gert. Einn af kostum þessa fyrirkomulags er að notendur geta á einfaldan hátt nálgast upplýsingar fylgiseðils á tungumáli sem þeim hentar. Með því móti megi betur tryggja rétta og örugga notkun lyfja og jafnframt fækka hindrunum á markaði.

Norðurlandaþjóðirnar horfa meðal annars til þess að innleiðingu rafrænna fylgiseðla í stað prentaðra muni auðvelda þeim sameiginleg lyfjainnkaup þar sem markaðurinn verði stærri og þar með áhugaverðari kostur fyrir lyfjafyrirtækin. Þannig megi sporna við lyfjaskorti, tryggja betur öryggi sjúklinga, jafnframt því að ná hagstæðara innkaupaverði og lækka lyfjaverð en þetta er talið hagsmunamál bæði fyrir lyfjafyrirtæki og notendur lyfja

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta