Forsætisráðherra heimsækir Reykjanesbæ og Grindavík
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Reykjanesbæ og Grindavik í dag.
Forsætisráðherra byrjaði á því að skoða Stapaskóla og fékk kynningu á starfsemi hans hjá Gróu Axelsdóttur, skólastjóra. Því næst átti forsætisráðherra fund með Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra og bæjarstjórn Reykjanesbæjar þar sem staða atvinnumála var rædd. Þá heimsótti forsætisráðherra Keili þar sem Jóhann Friðriksson framkvæmdastjóri fór yfir nýstofnað Menntanet Suðurnesja og forsætisráðherra ávarpaði starfsfólk Keilis.
Forsætisráðherra átti síðan fund með Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem farið var yfir stöðu þeirra verkefna sem tiltekin eru í skýrslu starfshóps um stöðumat og aðgerðaáætlun um eflingu þjónustu ríkisins á Suðurnesjum sem kynnt var í maí 2020. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að framkvæmd verkefna úr skýrslunni sem eru fjölbreytt og snúa meðal annars að bættri þjónustu við erlenda íbúa samfélagsins, eflingu menntunar og námskeiða og átaki gegn heimilisofbeldi. Stefnt er að því að verkefnunum veðri lokið nú í byrjun júní.
Forsætisráðherra átti næst fund með bæjarstjórn Grindavíkur þar sem farið var yfir viðbragðsáætlanir og aðra þætti vegna þess ástands sem skapast hefur á Reykjanesi vegna jarðhræringa sem staðið hafa með hléum undanfarið ár. Þá var farið yfir stöðu atvinnumála og innviða á svæðinu.
Að lokum heimsótti Katrín hjónin Sæmund og Önnu á Stóru Vatnsleysu.