Forsætisráðherra ræðir jafnréttismál við forsætisráðherra Kanada, Noregs og borgarstjóra London á SHE 2021
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók þátt í opnunarviðburði alþjóðlegu jafnréttisráðstefnunnar SHE 2021, sem haldin er í Noregi. Þema ráðstefnunnar í ár er „Jafnrétti skiptir máli“ (e; „Equality Matters“).
Forsætisráðherra tók þátt í pallborðsumræðum með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada og Sadiq Khan, borgarstjóra London. Þau ræddu meðal annars áhrif heimsfaraldursins á stöðu kvenna og jafnréttismál í heiminum og hlutverk leiðtoga við þær aðstæður sem skapast hafa vegna heimsfaraldursins.
Forsætisráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að jafnréttismál væru höfð að leiðarljósi þegar kemur að því að byggja upp hagkerfi heimsins eftir faraldurinn. Hún benti á að faraldurinn hefði afhjúpað veikleika í velferðarkerfum ýmissa landa og um leið minnt á mikilvægi slíkra innviða.
Um mikilvægi kvennastarfa í faraldrinum sagði forsætisráðherra:
„Í þessum faraldri höfum við séð hversu mikilvæg hin hefðbundnu kvennastörf eru, bæði í framlínunni í heilbrigðis- og menntakerfinu og hin ólaunuðu störf sem eru fremur falin inni á heimilunum. Í þessu samhengi þurfum við að ræða opinskátt hvernig við sem samfélag metum þessi störf sem hafa sýnt mikilvægi sitt sem aldrei fyrr í þessum faraldri.“
Í opnunarviðburðinum tóku einnig þátt Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og dóttir hennar, Chelsea Clinton, Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja Sjálands og Ellen Johnson Sirleaf, fyrrverandi forseti Líberíu.
SHE 2021 stendur fyrir fjölmörgum jafnréttistengdum viðburðum dagana 5.-18. mars sem hægt er að fylgjast með hér: https://www.sheconference.no/program-2021