Forsætisráðherra hringdi bjöllu fyrir jafnrétti
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hringdi í morgun bjöllu Kauphallarinnar fyrir jafnrétti á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Kauphallir í yfir 90 löndum í samstarfi við UN Women taka þátt í þessum viðburði en UN Women beinir sjónum sínum í dag sérstaklega að kvenleiðtogum, kvennasamtökum og kvennastéttum um allan heim. Viðburðurinn hér á landi var í samstarfi við SA og FKA.
Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra áherslu á mikilvægi þess að konur séu í forystu og taki þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu til jafns við karla. Þó að Ísland komi mjög vel út í alþjóðlegum samanburði í jafnréttismálum sé staðan óviðunandi þegar kemur að hlutfalli kvenna í stjórnum og meðal stjórnenda fyrirtækja.
Katrín sagði að mikið verk væri óunnið á þessu sviði: „Samtal um jafnréttismál og viðhorf okkar til jafnréttismála er gott en mér finnst það hafa staðið allt of lengi. Ég heiti á forystusveit íslensks atvinnulífs að breyta þessu hraðar,“ sagði Katrín.