Almenningur, hagaðilar og fræðasamfélag taki þátt í að móta leiðina að kolefnishlutleysi
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur falið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að hefja samráð vegna viðamikils verkefnis stjórnvalda um að ná kolefnishlutleysi á Íslandi 2040. Verkefnið ber heitið; Í átt að kolefnishlutleysi og felur í sér að almenningur, hagsmunaaðilar og fræðasamfélagið muni ræða hvernig kolefnishlutlaust Ísland geti litið út og leiðir að því markmiði. Fyrsta hluta verkefnisins er hleypt af stokkunum nú, með símakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands stýrir.
Íslensk stjórnvöld hafa sett fram það markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2040 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Frumvarp þar sem þessi markmið stjórnvalda koma fram hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra leggi það fram á Alþingi á yfirstandandi þingi.
Verkefnið Í átt að kolefnishlutleysi gengur út á að lýsa Íslandi sem kolefnishlutlausu samfélagi árið 2040 og rýna leiðirnar að því að skapa þetta samfélag.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands stýrir þeim hluta verkefnisins sem snýr að almenningi og hefst hann á símakönnun þar sem spurt verður spurt um áhuga, þekkingu og viðhorf fólks til loftslagsmála. Það verður einnig innt eftir því hvaða verkefni það telji brýnust, hverjir eigi að vinna þau og hver sé líklegur ávinningur.
Í kjölfarið mun Félagsvísindastofnun mynda um 100 mannasamráðshóp sem verður fenginn til að ræða á fjórum fundum helstu áskoranir, álitamál og lausnir á leiðinni að kolefnishlutleysi.
Hópar sérfræðinga frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík koma einnig að verkefninu. Munu þeir beita sérstökum hermilíkönum við vinnu sína til að lýsa mismunandi útfærslum á kolefnishlutlausu Íslandi á árinu 2040 og þeim breytingum sem þurfa að verða á íslensku samfélagi til að því markmiði verði náð.
Þá hefur verið skipaður ráðgjafahópur sem verður ráðuneytinu til ráðgjafar við framkvæmd verkefnisins. Í honum sitja fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytis, efnahags- og fjármálaráðuneytis, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis, Loftslagsráðs, Grænvangs og náttúru- og umhverfisverndarsamtaka.
„Síðastliðið vor skilaði Loftslagsráð af sér samantekt um kolefnishlutleysi þar sem stjórnvöld voru hvött til þess að útfæra og varða framtíðarsýn um kolefnishlutleysi. Undirbúningur fór strax af stað í ráðuneytinu og nú hefur verkefnið verið sjósett. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni því hér er verið að móta grunninn að sameiginlegri sýn samfélagsins á það hvernig við vinnum okkur í átt að kolefnishlutleysi. Þetta er ekki spurning um hvort við verðum kolefnishlutlaus, heldur hvaða leiðir við teljum að séu farsælastar að markmiðinu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.