Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Athugasemd við yfirlýsingu tveggja bæjarstjóra um hjúkrunarheimili

Alþingi - myndStjórnarráðið

Bæjarstjórar Fjarðabyggðar og Vestmannaeyjabæjar sendu í dag frá sér yfirlýsingu varðandi rekstur hjúkrunarheimila í bæjarfélögunum. Í tilkynningunni koma fram rangfærslur sem heilbrigðisráðuneytið leiðréttir hér með.

Eins og komið hefur fram í tilkynningum frá ráðuneytinu sögðu þessi sveitarfélög upp samningum sínum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um rekstur hjúkrunarheimila og var í kjölfarið ákveðið að heilbrigðisstofnanir í viðkomandi heilbrigðisumdæmum tæki að sér reksturinn. Áður en að til þeirrar ákvörðunar kom höfðu SÍ auglýst eftir aðilum sem áhuga hefðu á að taka við rekstri heimilisins en engin viðbrögð bárust við þeirri auglýsingu. 

Heilbrigðisráðherra getur ekki vikið frá lögum

Bæjarstjórarnir segjast neyddir til að grípa til hópuppsagna starfsfólks viðkomandi hjúkrunarheimila, af því að heilbrigðisráðherra sé ekki reiðubúinn að láta lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda. Nú er það svo að umrædd lög gilda, eins og nafn þeirra gefur til kynna, eingöngu um aðilaskipti að fyrirtækjum. Lögin gilda hvorki um breytingar á skipulagi eða starfsháttum stjórnvalds né tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda, eins og skýrt kemur fram í 1. gr. laganna. Hvergi í lögunum er að finna heimild til handa ráðherra til að ákveða, þvert á vilja löggjafans að þau skuli gilda í tilvikum sem þessum. Þessi staðreynd hlýtur að hafa verið bæjarstjórunum ljós þegar þeir ákváðu að segja upp samningum við SÍ um rekstur hjúkrunarheimilanna.

Lögum samkvæmt ber forstjórum heilbrigðisstofnananna sem ákveðið hefur verið að taki að sér rekstur hjúkrunarheimilanna í Vestmannaeyjum og Fjarðabyggð að ráða til sín starfsfólk á grundvelli auglýsingar, líkt og öðrum stofnunum ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta