Guðlaugur Þór fundaði með utanríkisráðherrum Norðurlanda og Bretlands
Öryggis- og alþjóðamál voru ofarlega á baugi á fjarfundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra og utanríkisráðherra Norðurlanda (N5), með Dominic Raab utanríkisráðherra Bretlands.
„Bretland er náið samstarfsríki Norðurlandanna allra hvort sem horft er til viðskipta, öryggis- og varnarmála, mannréttinda eða loftslagsmála. Við höfum um langt skeið unnið saman að því að styrkja alþjóðlega samvinnu á grunni sameiginlegra lýðræðislegra gilda og nú þegar Bretland stendur utan ESB eru tækifæri á því að dýpka þetta samstarf,“ sagði Guðlaugur Þór.
Guðlaugur Þór stýrði umræðum ráðherranna um norðurslóðamál. Tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík í maí næstkomandi þegar Rússar taka við formennskukeflinu.
„Norðurslóðir eru til umræðu á nánast öllum fundum sem ég tek þátt í og þessi var engin undantekning. Eftir útgönguna úr Evrópusambandinu huga Bretar nú að norðurslóðum og þeim tækifærum og áskorunum sem búa í svæðinu. Formennskuáherslur Íslands í Norðurskautsráðinu eru mikilvægt innlegg í þá umræðu og því gott að geta hnykkt á þeim á þessum vettvangi.“
Þá fjölluðu ráðherrarnir einnig um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem ráðgert er að haldin verði í Glasgow í nóvember næstkomandi undir formennsku Bretlands. Lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og nauðsyn þess að hafa metnaðarfull markmið og aðgerðir til að takast á við þá vá.
Mannréttindi voru einnig á dagskrá og undirstrikaði Guðlaugur Þór í þeirri umræðu mikilvægi þess að ríki vinni saman í að styrkja mannréttindi. Þau væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslendinga og að þátttaka Íslands í störfum mannréttindaráðs Sameinuðu Þjóðanna hefði sýnt að smærri ríki geti líka skipt sköpum þegar þau fá tækifæri til að láta að sér kveða.