Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Öflugar varnir eru undirstaða friðar

Gagnrýnin hugsun er undirstaða framfara og drifkraftur stjórnmálanna. Við megum aldrei taka neinu sem gefnu heldur verðum við sífellt að meta samtíma okkar og málefni líðandi stundar með gagnrýnum huga, spyrja spurninga og komast að niðurstöðu sem grundvallast á rökum. Þess vegna fagna ég því að í dag fer fram sérstök umræða á Alþingi um sannkallað grundvallarmálefni sem þó er of sjaldan rætt á þeim vettvangi: aðildina að Atlantshafsbandalaginu.

Samstaða lýðræðisþjóða

Markmiðið með starfi Atlantshafsbandalagsins hefur ávallt verið að stuðla að friði og öryggi í Evrópu. Það var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar í þeim tilgangi að tryggja frið, styrkja samstarf meðal ríkja bandalagsins og verja frelsi þeirra.

Þegar Bjarni Benediktsson þáverandi utanríkisráðherra undirritaði stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins í Washington hinn 4. apríl árið 1949 tók Ísland sér formlega stöðu með þeim vestrænu lýðræðisríkjum sem standa vörð um einstaklingsfrelsi, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið andspænis alræðisöflunum. Saga bandalagsins í meira en sjö áratugi, endalok kalda stríðsins, fall járntjaldsins og friður í Evrópu, endurspegla heilladrjúga samvinnu og styrk Atlantshafstengslanna.

Herlaus en ekki varnarlaus

Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag. Ákvarðanir eru teknar sameiginlega af fulltrúum aðildarríkjanna á grundvelli sameiginlegra öryggishagsmuna. Þar á Ísland sæti við borðið. Styrkur bandalagsins felst í samstöðunni og þeirri vissu að þar er einn fyrir alla og allir fyrir einn. Sú skuldbinding er greypt í fimmtu grein Atlantshafssáttmálans sem kveður á um að árás á eitt ríki bandalagsins jafngildi árás á þau öll. Ekkert annað samstarf hefur viðlíka tryggingu.

Ekkert ríki og engin þjóð lætur sig varnir og öryggi í léttu rúmi liggja. Flestar þjóðir, líka hinar smærri, verja gríðarlegum fjármunum varnir sínar. Við Íslendingar erum herlaus þjóð og viljum vera það. En við viljum líka búa við öryggi og varnir sem stólandi er á. Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu njóta Íslendingar, ásamt milljarði annarra jarðarbúa, verndar öflugasta varnarbandalags sögunnar. Ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin, tryggir aðildin þannig varnir okkar og öryggi og gerir okkur um leið kleift að vera áfram herlaus þjóð.

Gagnkvæm afvopnun eina leiðin

Kjarnorkuafvopnun er mikilvægur þáttur í sögu bandalagsins. Þegar kalda stríðið stóð sem hæst voru yfir sjö þúsund bandarísk kjarnavopn í Vestur-Evrópu en eru nú um 150-200. Markmið Atlantshafsbandalagsins er að heimurinn verði kjarnavopnalaus og bandalagið vinnur staðfastlega að því að skapa skilyrði fyrir því. Á sama tíma hefur Rússland þróað nýjar tegundir kjarnavopna og endurnýjað þau sem fyrir eru. Frekari fækkun kjarnavopna þarf að taka mið af alþjóðlegu öryggisumhverfi. Á meðan Rússland, Kína, Norður-Kórea og fleiri ríki búa yfir kjarnavopnum verða bandalagsríkin að gera það líka. Einhliða kjarnorkuafvopnun er firring og glapræði. Einungis með gagnkvæmri afvopnun er öryggi tryggt.

Blikur á lofti

Þáttaskil urðu í öryggis- og varnarmálum í okkar heimshluta við ólögmæta innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014. Hernaðaruppbygging Rússa og minnkandi gagnsæi um hvað þeir eru að aðhafast í okkar nærumhverfi er ein meginástæða þess að bandalagið hefur í auknum mæli beint sjónum að öryggi og vörnum á Norður-Atlantshafi.

Umfang starfseminnar á öryggissvæðunum í Keflavík endurspeglar þann aukna ófyrirsjáanleika sem ríkir í öryggismálum í okkar heimshluta. Aðbúnaður hér á landi til að ríki bandalagsins geti sinnt varnartengdum verkefnum á þessu svæði er eitt meginframlag Íslands til sameiginlegra varna bandalagsins, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Áþreifanlegt dæmi er loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins sem flugsveit norska hersins sinnir um þessar mundir.

Innan bandalagsins er einnig horft til framtíðar, hvernig bregðast megi við fjölþáttaógnum, nýjum ógnum sem örar tækniframfarir fela í sér og áhrifum loftslagsbreytinga á öryggismál, svo dæmi séu nefnd. Starf bandalagsins tekur þannig mið af þeim breytingum sem orðið hafa á öryggisumhverfi okkar.

Lykilstoð í þjóðaröryggi

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu hefur verið hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu í rúma sjö áratugi. Stuðningur við aðildina endurspeglast með afgerandi hætti í þjóðaröryggisstefnunni sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 mótatkvæðalaust.

Í stefnunni segir að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru tekin af öll tvímæli um að ríkisstjórnin fylgi þjóðaröryggisstefnunni sem hvílir ekki síst á aðildinni á Atlantshafsbandalaginu..

Sú mikla eindrægni og samstaða sem ríkir um aðildina að Atlantshafsbandalaginu er ánægjuleg og mikilvæg. Það er einnig mikilvægt að eiga málefnaleg skoðanaskipti um öryggis- og varnarmál því okkur hættir til að taka öryggi okkar og friðvænlegum aðstæðum sem sjálfsögðum hlut. Ég fagna því þeirri umræðu sem fram fer á Alþingi í dag.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2021

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta