Ríkisstjórnin styrkir verkefnið „Römpum upp Reykjavík“
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 3 milljóna króna styrk af ráðstöfunarfé sínu til að styðja við stofnun Aðgengissjóðs Reykjavíkur. Sjóðnum er ætlað að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslunum og veitingahúsum í Reykjavík en félagsmálaráðuneytið mun einnig styrkja verkefnið um 2 milljónir króna.
Fyrsta markmið sjóðsins er að gera 100 rampa á einu ári en verkefninu „Römpum upp Reykjavík“ var ýtt úr vör í Iðnó í dag, á degi aðgengis fyrir alla. Þar tóku til máls Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og hvatamaður að stofnun sjóðsins.
Byrjað verður í miðborg Reykjavíkur þar sem elstu húsin eru og aðgengið verst. Ráðgert er að sjóðurinn veiti styrki fyrir allt að 80% af kostnaði við gerð rampa eða upphækkana að verslunum og veitingastöðum.