Hoppa yfir valmynd
16. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Vægi samfélagsþjónustu aukið

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Dómsmálaráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingar um fullnustu refsinga. Með fumvarpinu eru lagðar til tímabundnar breytingar á ákvæðum laganna um samfélagsþjónustu og reynslulausn í því skyni að stytta boðunarlista til afplánunar í fangelsi.

Í lok síðasta árs voru 706 einstaklingar á boðunarlista Fangelsismálastofnunar til afplánunar refsinga samanborið við 300 einstaklinga árið 2010. Afleiðingarnar eru að meðalbiðtími eftir afplánun hefur lengst og fyrningum óskilorðsbundinna dóma hefur fjölgað.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða í lögin sem heimili Fangelsismálastofnun að fullnusta allt að 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu. Samkvæmt núgildandi ákvæði er stofnuninni heimilt að fullnusta allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu. Jafnframt er lagt til að hið sama eigi við þegar um refsingu samkvæmt fleiri en einum dómi er að ræða og í þeim tilvikum þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru sem fyrr segir tímabundnar og er ætlað að stytta boðunarlistann og þannig fækka fyrningum refsinga og stytta bið dómþola eftir afplánun. Verði ekkert aðhafst má leiða að því líkum að fyrningum fjölgi enn frekar en slíkt er óásættanlegt með tilliti til varnaðaráhrifa refsinga.

„Fyrningar refsinga hafa neikvæð áhrif á varnaðaráhrif refsinga, bæði almenn og sérstök. Þá er einnig óviðunandi að fjöldi dómþola skuli hefja afplánun refsingar nokkrum árum eftir að dómur fellur, en vitað er að varnaðaráhrif mögulegrar fangelsisvistar verða minni þegar bið eftir afplánun tekur nokkur ár. Að auki getur lengri bið eftir afplánun verið dómþolum þungbær en þeir hafa þá jafnvel snúið alfarið af þeirri braut sem leiddi til hinnar refsiverðu háttsemi, náð bata frá áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, stofnað fjölskyldu og lagt stund á nám eða vinnu. Þannig getur löng bið eftir afplánun haft gagnstæð áhrif en þau sem stefnt er að með þeirri betrunarstefnu sem stjórnvöld vilja leggja áherslu á,“ sagði dómsmálaráðherra í ræðu sinni á Alþingi.

Nánar má fylgjast með málinu á vef Alþingis

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta