Ráðherra tók þátt í alþjóðlegum fundi um heimsmarkmið sex
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í alþjóðlegum ráðherrafundi á vegum Sameinuðu þjóðanna um framgang og árangur við að ná heimsmarkmiði sex, sem snýst um að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Hann ávarpaði fundinn fyrir hönd vinahóps yfir tuttugu ríkja sem vinnur gegn eyðimerkurmyndun, landeyðingu og áhrifum þurrka. Vinahópurinn starfar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hafa Ísland og Namibía veitt hópunum forstöðu frá upphafi.
Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi landgæða þegar tryggja á aðgengi að hreinu vatni. Endurheimt lands og baráttan gegn landeyðingu séu lykilatriði til að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni fyrir 2030. Því sé bráðnauðsynlegt að ríki heims nái landhnignunarhlutleysi eigi síðar en 2030, það er að græða upp að minnsta kosti jafnmikið land og eyðist á hverju ári, eins og stefnt er að í heimsmarkmiði fimmtán um líf á landi.
Guðlaugur Þór benti á að þeir sem verst verða úti vegna skorts á hreinu vatni séu konur og stúlkur á þurrkasvæðum jarðarinnar. Þær eyði samtals 200 milljón klukkustundum á degi hverjum til að sækja sér og fjölskyldum sínum vatn. Þetta sé tapaður tími sem mætti nýta í margt annað, svo sem menntun, tekjuöflun og samveru með ástvinum. Vegna þessa veigamikla hlutverks kvenna og stúlkna við vatnsöflun, og við hin ýmsu landbúnaðarstörf, sé brýnt að konur séu með í ráðum ef takast á að ná heimsmarkmiði sex um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu.
Að lokum benti Guðlaugur Þór á að vinahópnum þætti ánægjulegt að sjá síaukinn skilning á samspili landgæða og vatnsöflunar í framkvæmd heimsmarkmiðanna og að hópurinn hlakki til að halda áfram umræðum og samstarfi um þau mál.