Ráðherra undirritaði samning um greiningu á svæðinu við Stuðlagil
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Gauti Jóhannesson, varaformaður Austurbrúar, hafa undirritað samning um að Austurbrú vinni að greiningu á svæðinu við Stuðlagil.
Stuðlagil er sjálfsprottinn áfangastaður ferðamanna sem hefur notið gríðarlegra vinsælda undanfarin ár. Einstakir hagsmunaaðilar hafa staðið að uppbyggingu þar, en staðurinn þarfnast frekari uppbyggingar á heildstæðum grunni til að vernda bæði viðkvæma náttúru sem og öryggi ferðamanna.
Markmið samningsins er að búa til ferli fyrir uppbyggingu á áfangastöðum með sjálfbærni og heildarsamræmingu ólíkra hagsmunaaðila að leiðarljósi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið styrkir verkefnið um 15 milljónir.
„Stuðlagil er áfangastaður sem segja má að hafi sprungið út öllum að óvörum. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem kostur er við uppbyggingu á stöðum sem þessum sem kunna að falla milli skips og bryggju í kerfinu. Verkefnið styður líka á margan hátt við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, svo sem undirstöður um samhæfingu og gæði og samfélagsáherslur á borð við jákvæð áhrif á nærsamfélag og aukin lífsgæði, stjórnun og uppbyggingu áfangastaða, einstaka upplifun ferðamanna og fagmennsku, gæði og öryggi í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún.
Afrakstur vinnunnar mun jafnframt skapa fyrirmynd sem getur í framhaldinu nýst áfangastaðastofum til að stíga inn í flókin ferli á borð við það sem er fyrir hendi á Stuðlagilssvæðinu, íslenskum ferðaþjónustuaðilum jafnt sem gestum landsins til hagsbóta til lengri tíma.
„Þessi styrkur mun gera okkur kleift að vinna faglega og skipulega að þróun vinsæls áfangastaðar á Austurlandi,“ segir Gauti Jóhannesson, varaformaður stjórnar Austurbrúar. „Stuðlagil hefur þegar sýnt sig að vera einstakur staður á landsvísu og mikilvægur fyrir framþróun ferðaþjónustu á Austurlandi og í raun landinu í heild.“