Drög nýrrar menningarstefnu í opið samráð
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Mér er fagnaðarefni að kynna drög nýrrar menningarstefnu sem endurspeglar kröftugt menningarlíf og virka þátttöku um land allt. Ég vil þakka öllum sem komið hafa að mótun hennar og lagt tíma sinn, þekkingu og ástríðu í það mikilvæga verkefni. Við búum að gróskumiklu og fjölbreyttu menningarlífi hér á landi og byggjum á því – með nýrri stefnu mörkum við sýn til framtíðar og rennum enn öflugri stoðum undir áhrifamátt og vaxtarmöguleika íslenskar menningar og lista.“
Stefnudrögin sem nú eru til umsagnar í Samráðsgátt eru unnin í samvinnu við fjölbreyttan hóp úr menningargeiranum og listalífinu en fjölmennur starfshópur hefur einnig haft drögin til rýni undanfarnar vikur. Formaður starfshópsins var Guðrún Sóley Gestsdóttir dagskrárgerðarkona en hann skipuðu, auk fulltrúa ráðuneytisins:
• Þóra Björk Ólafsdóttir framkvæmdastjóri safnaráðs,
• Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík,
• Stefán Eiríksson útvarpsstjóri,
• Sigtryggur Baldursson framkvæmdastjóri ÚTÓN,
• Oddur Bjarni Þorkelsson stjórnarmaður í Menningarfélagi Akureyrar,
• Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður,
• Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri,
• Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands,
• Karl Ágúst Úlfsson formaður Rithöfundasambands Íslands,
• Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður,
• Hlynur Páll Pálsson framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins,
• Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands,
• Erling Jóhannesson forseti Bandalags íslenskra listamanna,
• Bragi Valdimar Skúlason formaður Félags tónskálda og textahöfunda
Drögum að nýrri menningarstefnu er skipt í fimm kafla og undir þeim eru tilgreind átta markmið ásamt aðgerðum.
Í fyrsta kafla um aðgang og þátttöku eru lögð fram markmið um að stuðla að jöfnu aðgengi um land allt, fjölbreyttari valkostum fyrir atvinnufólk í listum, fleiri tækifærum til þátttöku í menningarstarfi og ríkara framboði viðburða.
Í öðrum kafla eru sett fram markmið um að hlúa að innviðum á sviði menningararfs, auka aðgang og vitund þjóðarinnar um menningarverðmæti og marka höfundaréttarstefnu.
Í þriðja kafla er fjallað um menntun, menningu og rannsóknir og markmiðið að fjölga möguleikum nemenda á öllum skólastigum til að njóta lista og menningar og efla jafnframt list- og menningarlæsi. Einnig er fjallað um að skapa vettvang fyrir samtal um rannsóknir á sviði lista- og menningar.
Fjórði kafli fjallar um menningarstjórnsýslu og sjóðakerfi menningar og þar eru markmið sett um að efla það kerfi auk þess að bæta starfsumhverfi sjálfstætt skapandi listamanna.
Að lokum er í fimmta kafla vikið að menningu í alþjóðasamhengi og markmiðum um að Ísland sé virkur og sýnilegur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á öllum sviðum menningar og lista.
Smelltu hér til að kynna þér drög nýrrar menningarstefnu í Samráðsgátt. Umsagnafrestur er til 2. apríl nk.