Hlutur heimilanna í kostnaði við heilbrigðisþjónustu fer lækkandi
Greiðsluhlutfall íslenskra heimila af heilbrigðisútgjöldum hefur lækkað úr 18,3% árið 2013 niður í 15,6% árið 2019. Á kjörtímabilinu hefur 700 milljónum nú þegar verið varið í lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga og í gildandi fjármálaáætlun til næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir að verja 4 milljörðum kr. til að lækka greiðsluþátttökuna enn frekar. Því má ætla að hlutfallið verði komið niður í 13–14% við lok gildistíma hennar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til Alþingis.
Í skýrslu ráðherra er vísað í markmið heilbrigðisstefnu um að greiðsluþátttaka fólks fyrir heilbrigðisþjónustu skuli jafnast á við það sem er lægst hjá grannþjóðum okkar og að þjónustan skuli vera gjaldfrjáls fyrir viðkvæma hópa. Árið 2018 nam hlutdeild íbúa Norðurlandaþjóðanna í heilbrigðiskostnaði 15,2% að meðaltali og því ljóst að markmið heilbrigðisstefnu er í sjónmáli.
Heilbrigðisráðherra hefur lagt sérstaka áherslu á lækkun greiðsluþátttöku og ráðist hefur verið í fjölbreyttar aðgerðir á síðustu árum til þess að sjúklingar borgi minna fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf, en ríkið borgi stærri hlut. Sem dæmi um svið þar sem fjárframlög hafa verið aukin í því skyni að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga má nefna:
Sálfræðiþjónusta: Á árunum 2018–2021 hafa bein fjárframlög til geðheilbrigðismála verið aukin um 1,155 milljarða króna með áherslu á að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu og koma á fót geðheilsuteymum í öllum heilbrigðisumdæmum.
Tannlækningar: Samningur um tannlækningar fyrir aldraða og örorkulífeyrisþega til þriggja ára tók gildi í september 2018 og í tengslum við hann hækkaði greiðsluþátttaka hins opinbera fyrir þessa þjónustu úr 27% í 50%. Hlutfallið hækkaði enn frekar, þ.e. í 57% 1. janúar síðastliðinn og stefnt er að því að hlutfallið verði 75% í lok gildandi fjármálaáætlunar á móti 25% greiðsluþátttöku hlutaðeigandi einstaklinga. Samkvæmt samningnum greiða aldraðir á hjúkrunarheimilum ekkert fyrir tannlæknaþjónustu.
Komugjöld í heilsugæslu: Komugjöldin hafa verið lækkuð á síðustu misserum. Almennt komugjald er nú 500 kr. fyrir sjúkratryggða einstaklinga en þeir sem eru 67 ára og eldri, öryrkjar og börn greiða ekkert komugjald. Ef börn eldri en tveggja ára fá tilvísun vegna þjónustu sérfræðinga er þjónustan án endurgjalds og öll heilbrigðisþjónusta barna yngri en tveggja ára er án endurgjalds, óháð tilvísun. Heilsugæslan annast frá síðustu áramótum skimun fyrir krabbameini í leghálsi og er gjaldið fyrir þjónustuna 500 kr. en var áður 4.818 kr.
Lyfjakostnaður: Fyrirhugað er að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga vegna lyfjakaupa. Fyrsta skrefið í þá átt var stigið 1. janúar sl. þegar hámarksgreiðsla lífeyrisþega í fyrsta þrepi greiðsluþátttökukerfisins var lækkuð úr 14.500 kr. í 14.000 kr.
Hjálpartæki: Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á síðustu misserum til að auka réttindi fólks til hjálpartækja og lækka greiðsluþátttöku, eins og nánar má lesa um í meðfylgjandi skýrslu.
Í þessu samhengi má nefna að þrjár grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á reglum um greiðsluþátttöku sjúklinga á liðnum árum. Í fyrsta lagi með nýju greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja sem tók gildi árið 2013 og í öðru lagi með nýju greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu sem tók gildi 2017. Með þessum breytingum var sett þak á hámarksútgjöld einstaklinga fyrir lyf og aðra heilbrigðisþjónustu. Allir sitja við sama borð að því leyti að einstaklingum er ekki mismunað eftir sjúkdómum eða lyfjanotkun. Allir greiða upp að ákveðnu marki eftir sömu reglum en eru vel varðir fyrir miklum lyfjakostnaði, þurfi þeir á mörgum eða dýrum lyfjum að halda, andstætt því sem var í gamla kerfinu. Hámarksgreiðslan er lægri hjá börnum, öryrkjum og öldruðum en öðrum og tekið er sérstakt tillit til barnafjölskyldna. Í þriðja lagi var gerður samningur um tannlæknaþjónustu við börn á aldrinum 0–18 ára árið 2013 sem innleiddur var í áföngum. Samkvæmt honum greiða börn yngri en 18 ára aðeins 2.500 kr. árlegt komugjald þegar þau leita til tannlæknis.
Meðfylgjandi skýrsla heilbrigðisráðherra var samin á grundvelli þingsályktunar um að fela heilbrigðisráðherra að meta hvernig lágmarka megi kostnað sjúklinga vegna langvinnra og lífshættulegra sjúkdóma.