Mótun landbúnaðarstefnu stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar
Vinna við mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem nú stendur yfir er stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar nú um stundir. Í þeirri vinnu verður teiknuð upp framtíðarsýn. Tækifæri til að stilla saman strengi – skapa sameiginlega framtíðarsýn til næstu áratuga sem byggir á óumdeildum kostum og styrkleikum íslensks landbúnaðar. Um leit er mikilvægt fyrir bændur að styrkja enn frekar tengslin við íslenska neytendur. Bændur verða til framtíðar að svara spurningum neytenda, hlusta eftir þeirra þörfum og auka skilning.
Þetta kom fram í ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við setningu Búnaðarþings í dag. Ávarpið í heild sinni má finna hér.
Úr ávarpi Kristjáns Þórs á Búnaðarþingi í dag um mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland:
„Ég hef sagt að þessi stefnumótun þarf að taka tillit til þess að íslenskur landbúnaður er ekki aðeins framleiðsluferill á matvælum. Íslenskur landbúnaður hvílir á breiðari grunni. Hann er hluti af vitund okkar um náttúruna, lífssýn bóndans og verðmætin sem felast í heiðum og dölum. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að byggja á þessari arfleifð en um leið verðum við að horfast í augu við að kröfur, smekkur, viðhorf og lífstíll breytast hratt – nánast dag frá degi. Um leið þarf að taka mið af því að landbúnaður er ekki atvinnugrein þar sem allt í einu er hægt að rjúka til handa og fóta og auka eða draga úr framleiðslu í einu vetfangi. Allt þetta styrkir mig í þeirri skoðun að heildstæð langtímastefnumótun fyrir íslenskan landbúnað sé ekki aðeins tímabær, heldur nauðsynleg.
Ég bind vonir við gagnrýna og málefnalega umræðu um þessi stefnumótun. Að bændur taki virkan þátt og spyrji grundvallarspurningu: Hvað vilja bændur? Hvaða kröfur gera þeir til að við fullnýtum þessi tækifæri; til sjálfs síns. Til neytenda. Til stjórnvalda. En við skulum ekki gleyma því að hugmyndin er ekki að marka stefnu fyrir bændur – það gerið þið hér á búnaðarþingi, heldur landbúnaðarstefnu fyrir samfélagið allt. Hvaða hlutverk vill það fela landbúnaðinum og hvað vill það gera til að greinin nái markmiðum sínum.
Þarna gefst kostur á að ræða leiðir og lausnir til að sækja fram. Þarna verður teiknuð upp framtíðarsýn. Tækifæri til að stilla saman strengi – skapa sameiginlega framtíðarsýn til næstu áratuga sem byggir á óumdeildum kostum og styrkleikum íslensks landbúnaðar. Ég fullyrði að þessi vinna er stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar nú um stundir.“