Hoppa yfir valmynd
23. mars 2021 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sett reglugerð með nýjum og breyttum ákvæðum um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Meginmarkmið nýrrar reglugerðar er að veita aukinn stuðning til sveitarfélaga vegna úrbóta sem gerðar eru í aðgengismálum fatlaðs fólks. Sérstaklega er kveðið á um að Fasteignasjóði sé heimilt, á árunum 2021 og 2022, að úthluta samtals 363 m.kr. í sérstök framlög til:

  • Úrbóta á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða þar sem um er að ræða byggingar í eigu annarra aðila en sveitarfélaga þar sem um samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila er að ræða.
  • Úrbóta þannig að biðstöðvar almenningssamgangna séu aðgengilegar öllu fötluðu fólki, svo og útivistarsvæði og almenningsgarðar.
  • Úrbóta sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Umsóknir um þessi sérstöku framlög, á árunum 2021 og 2022, skulu berast Jöfnunarsjóði ásamt fullnægjandi gögnum eigi síðar en 31. desember 2022. Jöfnunarsjóður tekur afstöðu til umsókna eftir því sem þær berast og gerir tillögu til ráðherra um úthlutanir að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar sjóðsins. 

Eins og gildir um önnur framlög Jöfnunarsjóðs eru sveitarfélögin umsækjendur og viðtakendur framlaga. Eðlilegt er að sveitarfélög sem starfa saman á vettvangi þjónustusvæða í málefnum fatlaðs fólks hafi samráð sín á milli varðandi umsóknir til þess að tryggja jafnræði íbúa. 

Vakin er athygli á að sveitarfélög geta sótt um framlög til úrbóta sem unnið er að í samvinnu við sjálfstæða þjónustu- og rekstraraðila. Skilyrði er þó að fyrir hendi sé samningur á milli sveitarfélags/þjónustusvæðis og viðkomandi rekstraraðila sem gerður er skv. 6. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og á grundvelli starfsleyfis skv. 7. gr. sömu laga. 

Rétt er að taka fram að í b-lið 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sveitarfélög geti sótt um framlag til úrbóta þannig að biðstöðvar almenningssamgangna séu aðgengilegar öllu fötluðu fólki. 

Jöfnunarsjóður mun móta verklagsreglur um meðferð umsókna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta