Hoppa yfir valmynd
24. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu í Brussel

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, stýrði fundi - myndAtlantshafsbandalagið

Tillögur um eflingu á starfi Atlantshafsbandalagsins voru efst á baugi á tveggja daga fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag.

Fundurinn fór fram í Brussel og er það í fyrsta sinn frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst að ráðherrar bandalagsins koma saman til fundar í eigin persónu, en undanfarið ár hafa þeir fundað reglulega um öruggan fjarfundabúnað. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti ekki heimangengt að þessu sinni en Hermann Örn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, tók þátt í fundinum í hans stað.

Ráðherrarnir ræddu drög að tillögum sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, leggur fyrir leiðtoga bandalagsins síðar á árinu um endurskipulagningu bandalagsins til að styrkja  Atlantshafstengslin og efla pólitíska samvinnu og samheldni í röðum bandalagsríkjanna. Tillögurnar byggja á víðtæku samráði undanfarna mánuði undir merkjum NATO 2030 og álitsgerð vinnuhóps sérfræðinga sem kom út í desember sl. þar sem tæpt er á helstu áskorunum sem bandalagið stendur frammi fyrir. Í tillögunum er einnig gert ráð fyrir nýjum áherslum, s.s. á tengsl loftslagsbreytinga og öryggismála, efla tæknilegt forskot bandalagsríkja og styrkja bandalagið sem pólitískt samráð bandalagsríkja sem vilja standa vörð um þau lýðræðislegu gildi sem bandalagið byggir á.

Nálgun bandalagsins á málefni Rússlands var til umfjöllunar á fundinum. Óútreiknanlegt framferði Rússlands á undanförnum árum, brot á alþjóðalögum og þróun nýrra eldflaugakerfa þvert á afvopnunarsamninga hefur kallað á eflingu fælingar- og varnarviðbúnaðar bandalagsins. Áframhaldandi netárásir og íhlutun í málefni annarra ríkja gefa ekki tilefni til bjartsýni um að breytinga sé að vænta af hálfu Rússlands. Utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar tóku þátt í þessum hluta fundarins ásamt utanríkismálastjóra ESB.

Málefni Afganistans voru rædd og staða öryggismála við suðurjaðar bandalagsins. Framtíð Resolute Support, stuðningsverkefnis bandalagsins í Afganistan,  var til umræðu, en það felst í ráðgjöf og þjálfun til að efla öryggisstofnanir landsins og hefur það að markmiði að Afganar geti annast eigin varnir. Alls 36 ríki taka nú þátt í verkefninu, þ.m.t. Finnland og Svíþjóð. Friðarumleitanir í landinu voru einnig til umræðu en Bandaríkin leitast um þessar mundir við að liðka fyrir framkvæmd friðarsamkomulagsins frá því í febrúar 2020 með þátttöku nokkurra lykilríkja og Sameinuðu þjóðanna, sem hafa nýlega skipað sérlegan sendierindreka um málefni Afganistans. 

Í yfirlýsingu af fundinum er áhersla lögð á mikilvægi Atlantshafstengslanna, en þetta var fyrsti fundur ráðherranna frá því að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum í Bandaríkjunum. 

 
  • Hermann Ingólfsson fastafulltrúi og ítalskur starfsbróðir hans. - mynd
  • Sóttvarna var gætt þegar hópmynd fundarins var tekin - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta