Hoppa yfir valmynd
25. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Ályktun um stöðu mannréttinda í Íran samþykkt í mannréttindaráðinu

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á þriðjudag ályktun um ástand mannréttinda í Íran sem ríkjahópur undir forystu Íslands lagði fram. Ályktunin, sem lögð er fram árlega, tryggir áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna skýrslu um ástand mannréttindamála í Íran.

Ísland tók við forystu í ríkjahópnum í núverandi fundarlotu mannréttindaráðsins, hafandi fyrst tekið sæti í honum fyrir ári síðan. Auk Íslands eiga Bretland, Norður-Makedónía og Moldóva sæti í hópnum. Í ályktuninni, sem Harald Aspelund fastafulltrúi Íslands bar upp í atkvæðagreiðslu í mannréttindaráðinu, eru stjórnvöld í Íran hvött til að eiga samstarf við þennan sérstaka skýrslugjafa ráðsins og gera honum kleift að heimsækja landið og hitta þá aðila og sinna því eftirliti sem mannréttindaráðið hefur falið honum. Í nýjustu skýrslunni sem lá til grundvallar umræðu í ráðinu í yfirstandandi fundarlotu er varpað ljósi á alvarleg mannréttindabrot í Íran og harmaði Harald þá stöðu í ávarpi sínu á þriðjudag.

Þessari 46. fundarlotu mannréttindaráðsins lauk í gær. Hún hófst með sérstakri ráðherraviku og flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þar árlegt ávarp sitt sem lesa má hér. Hæst bar í lotunni sameiginlegar yfirlýsingar 45 ríkja um mannréttindaástand í Rússlandi og 31 ríkis um mannréttindaástand í Egyptalandi. Ísland átti aðild að báðum ávörpum en þau teljast söguleg. Þess má geta að síðast þegar hópur ríkja fylkti liði um sameiginlega yfirlýsingu um Egyptaland var það Ísland sem flutti ávarpið. Enn fremur heyrði til tíðinda sameiginleg yfirlýsing sem fulltrúi Bandaríkjanna flutti fyrir hönd meira en 150 ríkja um kynþáttahyggju og varnir gegn henni.

Ísland á mikið og gott samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin á vettvangi mannréttindaráðsins og í þessari fundarlotu voru flutt sameiginlega 36 ávörp í nafni annað hvort allra átta ríkjanna eða Norðurlandanna fimm. Ísland flutti einnig nokkur ávörp eitt og sér en öll ávörp eru aðgengileg á vefsíðu fastanefndar Íslands í Genf.

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta