Ísland í efsta sæti Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti tólfta árið í röð
Ísland mælist í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins, (e; World Economic Forum) tólfta árið í röð. Skýrslan: Global Gender Gap Report kemur nú út í fimmtánda skiptið og tekur til 156 ríkja. Mælikvarðarnir taka til fjögurra meginsviða kynjajafnréttis: Stjórnmála, menntunar, atvinnu og heilbrigðis.
Í skýrslunni fá ríkin einkunn þar sem 100 stig tákna fullkomið jafnrétti. Ísland fær 89,2% stig sem er hækkun um 1,5% stig frá fyrra ári. Þar á eftir koma Finnland, Noregur, Nýja Sjáland og Svíþjóð.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sendi af þessu tilefni bréf til Klaus Schwab, stofnanda Alþjóðaefnahagsráðsins, þar sem hún þakkaði ráðinu fyrir mikilvægt starf í þágu jafnréttis og fór yfir lykilþætti í árangri Íslands sem er öflug kvennahreyfing og kerfisbundnar aðgerðir stjórnvalda í þágu jafnréttis.
Skýrsla Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti