Samkomulag um yfirfærslu Hulduhlíðar og Uppsala til Heilbrigðisstofnunar Austurlands
Öllu starfsfólki dvalar- og hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði verða boðin áframhaldandi störf og á sömu kjörum þegar Heilbrigðisstofnun Austurlands tekur við rekstri heimilisins 1. maí næstkomandi. Starfsfólkið mun jafnframt halda áunnum réttindum sínum. Þetta er megininntak samkomulags sem heilbrigðisráðuneytið og Fjarðabyggð hafa gert með sér vegna yfirfærslunnar. Samkomulagið í heild sinni verður kynnt fyrir starfsfólki og hlutaðeigandi stéttarfélögum strax eftir páska.