Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2021 Forsætisráðuneytið

Gervigreindarstefna fyrir Ísland

Nefnd um ritun gervigreindarstefnu fyrir Ísland hefur skilað forsætisráðherra tillögum að stefnunni en þær voru kynntar á fundi ríkisstjórnar í morgun. Forsætisráðherra skipaði nefndina í október 2020 og var henni falið að skila tillögum að skýrri framtíðarsýn um hvernig íslenskt samfélag geti unnið með gervigreind öllum til hagsbóta. Fjölmargir aðilar hafa verið kallaðir til og tillögurnar hafa farið í samráðsgátt stjórnvalda.

„Markmið stefnu Íslands um gervigreind er að stuðla að því að Ísland hafi sterkan og sameiginlegan siðferðislegan grundvöll fyrir þróun og nýtingu gervigreindar, byggðan á góðri þekkingu á tækninni og þeim öryggisáskorunum sem henni fylgja,“ segir í tillögunum.

Til þess að umrætt markmið náist þurfi að uppfylla eftirfarandi forsendur sem nefndin telur Ísland vera í góðri stöðu að gera:

  • Íbúar landsins þurfa að vera í stakk búnir til að athafna sig í umhverfi þar sem gervigreind er nýtt.
  • Grunnstoðir lýðræðis þurfa að vera styrkar.
  • Mannréttindi þurfa ávallt að vera höfð að leiðarljósi við innleiðingu og notkun gervigreindar.
  • Huga þarf vel að tæknilegum áskorunum gervigreindar, ekki síst er varða öryggi.

Gervigreindarstefna fyrir Ísland byggir á þremur grunnstoðum. Í fyrsta lagi að gervigreind sé í allra þágu en settar eru fram tillögur að þeim gildum sem byggja ætti þróun, innleiðingu og notkun gervigreindar á sem og um siðferðisleg viðmið. Í öðru lagi að atvinnulíf sé samkeppnishæft. Þar er fjallað um mögulegar aðgerðir og áherslur hins opinbera sem geta stutt við stafræn umskipti atvinnulífsins. Í þriðja lagi að menntun sé í takt við tímann. Þar er lögð áhersla á læsi og gagnrýna hugsun, uppbyggingu sérhæfingar og fjölgun tæknimenntaðra og möguleika notkun gervigreindar til kennslu. Forsætisráðherra mun leggja stefnuna fram sem skýrslu á Alþingi.

 

Stefna Íslands um gervigreind

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta