Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands

Til umsagnar: Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands - myndStjórnarráðið

Samningur Læknafélags Reykjavíkur, fyrir hönd sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, sem gerður var í lok árs 2013 rann út í lok árs 2018. Síðan þá hafa samningar ekki náðst milli aðila. Í lögum um sjúkratryggingar er skýrt kveðið á um þá meginreglu að til þess að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu þurfi að liggja fyrir samningur milli aðila um veitingu þjónustunnar. Lögin heimila þó ráðherra að setja reglugerð um tímabundna endurgreiðslu til sjúkratryggðra á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnunin gefur út. Skýrt er tekið fram í lögunum að umrædd heimild sé tímabundið úrræði sem einungis skuli nýta í sérstökum tilfellum. Þetta er enn fremur undirstrikað í greinargerð með lögunum þar sem fram kemur að því skuli aðeins beitt í einstökum afmörkuðum tilvikum. Nú hefur þessu úrræði verið beitt í á þriðja ár og því ljóst að vart er lengur hægt að líta svo á að um tímabundnar aðstæður sé að ræða.

Heilbrigðisráðherra telur afar brýnt að samningar náist um þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, þar sem þjónusta þeirra er mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu landsins og ljóst að fjöldi sjúklinga reiðir sig á þjónustuna með góðum árangri. 

Núverandi ástand vinnur gegn markmiðum um að tryggja sjúklingum heilbrigðisþjónustu óháð efnahag

Í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur ráðherra sett fram það hámark sem sjúkratryggður skuli greiða fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er mikilvægur liður í því að tryggja öllum sem greiðastan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Aftur á móti hafa sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar í sumum tilvikum sett gjaldskrár til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna. Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins, sjúklingar fá þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um umfang þessara gjalda og þau standa fyrir þrifum því kerfi sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.

Til að bregðast við þessari stöðu áformar heilbrigðisráðherra að gera breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Í breytingunni felst að reglugerðin mun ekki taka til þeirra sem krefja sjúklinga um auknar greiðslur umfram gjaldskrá sjúkratrygginga. Ráðherra áformar enn fremur að setja skilyrði um að sérgreinalæknar skili ársreikningi vegna reksturs síns hyggist þeir sækja endurgreiðslu á hlut sjúklings frá sjúkratryggingum og jafnframt að læknum verði skylt að skila í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu, þeim upplýsingum sem landlækni eru nauðsynlegar til að sinna eftirliti með þjónustu þeirra.

Eitt af meginmarkmiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er að þjónusta sé veitt á réttum stað innan heilbrigðiskerfisins með hliðsjón af skilgreiningum laga um heilbrigðisþjónustu á fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Með vísan til þessa markmiðs hefur heilbrigðisráðherra sent Sjúkratryggingum Íslands erindi þar sem stofnuninni er falið að greina hvaða verk sérgreinalækna skuli verða tilvísunarskyld til framtíðar. Stofnuninni er einnig falið að gera tillögu til ráðherra um hvaða verk á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands skuli fella brott með það fyrir augum að þjónustan skuli fremur veitt innan opinberra stofnana.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta