Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um lögfestingu markmiðs um kolefnishlutleysi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga sem festir í lög markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040.

Lögfesting markmiðsins er mikilvægur áfangi í vegferð Íslands að kolefnishlutleysi. Kolefnishlutleysi telst vera náð þegar losun kolefnis er ekki meiri en sem nemur bindingu þess. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um loftslagsmál og er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2017 og uppfærða aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagmálum.

Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum sem hefur það að markmiði að halda hnattrænni hlýnun innan við 2 °C og eins nálægt 1,5 °C og hægt er. Hnattrænt markmið um kolefnishlutleysi er grundvallaratriði í baráttunni við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra og er Ísland í hópi þeirra fjölmörgu ríkja heims sem hafa þegar sett fram markmið um kolefnishlutleysi.

Eigi það markmið að nást þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda alls staðar þar sem því verður við komið og auka bindingu kolefnis í jarðvegi, gróðri, bergi eða með öðrum varanlegum hætti. Þó Ísland sé framarlega er kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, er samfélagið enn að miklu leyti háð jarðefnaeldsneyti, sérstaklega varðandi samgöngur. Það sama gildir um suma af stærstu atvinnuvegum landsins, s.s. sjávarútveg og ferðaþjónustu og eins má rekja stóran hluta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi til stóriðju.

„Lögfesting markmiðs um kolefnishlutleysi er afar mikilvægt skref í loftslagsmálum á Íslandi. Það sýnir að okkur er alvara. Með lögfestingu markmiðs um kolefnishlutleysi myndi Alþingi setja okkur Íslendinga á sama stað og aðrar þjóðir sem stigið hafa þetta skref og jafnframt setja mikilvægt fordæmi fyrir þær þjóðir sem ekki hafa lögfest slíkt markmið. Hafin er umfangsmikil stefnumótunarvinna þar sem leiðin að markinu verður vörðuð í samtali, samráði og samvinnu við almenning og hagaðila.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Loftslagsmál – markmið um kolefnishlutleysi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta