Öll þingmál heilbrigðisráðherra komin til nefndar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur nú mælt fyrir þeim sex þingmálum sem liggja fyrir Alþingi af hennar hálfu á vorþinginu og eru þau komin til umfjöllunar í velferðarnefnd. Einnig er komin til velferðarnefndar tillaga heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030. Tvö frumvörp ráðherra eru þegar orðin að lögum frá Alþingi á vorþinginu, þ.e. breyting á sóttvarnalögum í febrúar síðastliðnum og breyting á lögum um sjúklingatryggingu sem Alþingi samþykkti í mars.
Auk þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um lýðheilsustefnu eru eftirtalin frumvörp ráðherra til umfjöllunar í velferðarnefnd:
- Ávana- og fíkniefni - iðnaðarhampur
- Ávana- og fíkniefni - afglæpavæðing neysluskammta
- Lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga og vísindarannsóknir á heilbrigðissviði – aðgangur að heilbrigðisgögnum)
- Rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur – (nikótínvörur)
- Réttindi sjúklinga – (beiting nauðungar)
- Slysatryggingar almannatrygginga – (atvinnusjúkdómar, miskabætur o.fl.)