Ráðherra undirritar Bratislava yfirlýsingu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag s.k. Bratislava yfirlýsingu er hann tók þátt í fundi Forest Europe, en fjöldi ráðherra skógarmála í Evrópu sátu fundinn. Forest Europe er samstarf ráðherra á því sviði í álfunni sem hefur það markmið að efla og samhæfa, vernd, ræktun og nýtingu skóga í Evrópu.
Bratislava yfirlýsingin sem ráðherrarnir undirrituðu felur meðal annars í sér að stefnt er að því að stöðva eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni í skógum, endurheimt skóga og að hlutverk skóga í jarðvegsvernd sé að fullu viðurkennt. Jafnframt felur hún í sér staðfestingu á að skógar leiki stórt hlutverk við að sjálfbærni nái fram að ganga þ.á.m. í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig er viðurkennt að hagaðilar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í leiðinni að sjálfbærni sem og mikilvægi rannsókna í skógrækt og kynning á vísindalegri þekkingu.
Með undirritun sinni staðfestu ráðherrarnir einnig áframhaldandi vinnu og samstarf um þætti skógræktar á borð við gerð landsáætlana fyrir skógrækt, aðlögun skóga að loftslagsmálum og stuðning við hringrásarhagkerfið.
„Með þessari yfirlýsingu erum við að efla samstarf í Evrópu á sviði skóga, skógverndar, endurheimtar skóga og nýskógræktar. Þetta er mikilvægur liður í að styðja við stefnu um náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum þar sem á sama tíma er horft til loftslagsmála, endurheimtar líffræðilegrar fjölbreytni og að sporna gegn landeyðingu með samhæfingu þessara stóru umhverfismála að leiðarljósi, en ég hef lagt ríka áherslu á þessa nálgun í ráðherratíð minni. Það var jafnframt ánægjulegt að heyra hversu víða hefur komið í ljós síðasta árið hvað skógar sem útivistarsvæði geta haft jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði fólks,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.