Grænni og betri uppbygging að loknum heimsfaraldri
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra áréttaði hlutverk einkageirans í atvinnuuppbyggingu á fundi norrænna og afrískra ráðherra í dag. Hann lagði jafnframt áherslu á hlutverk sjálfbærrar orku við að ná markmiðum heimsmarkmiðanna.
Fundur norrænna og afrískra ráðherra bar yfirskriftina Building Back Better and Greener og fjallaði hann um græna hagkerfið og atvinnuuppbyggingu eftir heimsfaraldurinn. Í ávarpi sínu lagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra áherslu á hlutverk einkageirans við að skapa og viðhalda grænum og verðmætum störfum. „Græn, viðnámsþolin enduruppbygging fyrir alla gerist ekki án þróttmikils einkageira og sérstaklega er mikilvægt að huga að litlum og meðalstórum fyrirtækjum því þar er yfirgnæfandi meirihluti starfa í lágtekjuríkjum,“ sagði Guðlaugur Þór.
Ísland tók nýverið að sér hlutverk heimserindreka (e. Global Champion) í tengslum við ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku sem haldinn verður í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september. Í því sambandi leggur Ísland áherslu á lykilhlutverk sjálfbærrar orku við að ná markmiðum heimsmarkmiðanna, sérstaklega þegar um er að ræða jafnrétti, atvinnusköpun, þátttöku ungs fólks og sjálfbæra matvælaframleiðslu.
„Ef við fjárfestum meira í sjálfbærri orku verða jafnframt til tækifæri til þess að búa til græn, verðmæt störf fyrir konur og ungt fólk.“ Guðlaugur Þór sagði jafnframt að „við vitum að heimsfaraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á þann árangur sem hefur náðst í jafnréttismálum og okkur ber skylda að takast á við þá staðreynd.“
Til fundarins var boðað af Danmörku, Svíþjóð og World Resources Insitute og var hann hluti af vorfundum Alþjóðabankans. Ellen Johnson Sirleaf, fríðaverðlaunahafi Nóbels og fyrrverandi forseti Líberíu flutti opnunarávarp og einnig tóku yfirmenn Alþjóðabankans og Afríska þróunarbankans, Alþjóða vinnumálastofnunarinnar og Þróunarætlunar Sameinuðu þjóðanna þátt.
Aðgangur að endurnýjanlegri orku gegnir lykilhlutverki í sjálfbærri matvælaframleiðslu, sem eykur bæði verðmæti afurða, minnkar sóun og skapar verðmæt störf. Ný störf í bláa hagkerfinu eru sérlega mikilvæg fyrir smáeyþróunarríki og lágtekju strandríki. Ísland vill halda áfram að miðla af reynslu sinn á þessum sviðum.