Mælt fyrir breytingum á rammaáætlun og þingsályktunartillögu um staðsetningu vindorkuvera
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í vikunni fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um rammaáætlun og tillögu til þingsályktunar um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands.
Frumvarpið um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) snýr að málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku. Verði það að lögum mun vindorkan fá nokkuð aðra málsmeðferð og meðhöndlun innan rammaáætlunar en hinir hefðbundnu virkjunarkostir, vatnsorka og jarðvarmi.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að skoðun og mat verkefnisstjórnar rammaáætlunar á virkjunarkostum í vindorku taki mið af því séreðli vindorkunnar að hún er hvorki takmarkaður né staðbundinn orkukostur og því hægt að hagnýta vindorkuna víða um land.
Í frumvarpinu og tillögu til þingsályktunar er byggt á því að landsvæðum verði skipt í þrjá flokka; í fyrsta flokk falli landsvæði þar sem vindorkunýting er ekki heimiluð, í annan flokk falli svæði sem geta verið viðkvæm til hagnýtingar vindorku og mælt er fyrir um að sæti sérstakri skoðun og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Í þriðja flokk falli öll önnur landssvæði og liggur ákvörðunarvald varðandi virkjanir á þeim svæðum hjá viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli almennra laga og reglna.
Samkvæmt frumvarpinu er tillaga til þingsályktunar meginverkfærið við mat verkefnisstjórnar rammaáætlunar á einstökum virkjunarkostum. Í henni kemur fram skýr opinber stefnumörkun um staðsetningu slíkra mannvirkja út frá tilgreindum flokkum lands, auk þess sem mælt er fyrir um þær meginreglur, viðmið og áhrifaþætti sem byggja skal mat verkefnisstjórnar á þegar virkjunarkostir eru teknir til skoðunar.
Verði frumvarp þetta að lögum og þingsályktunartillaga því fylgjandi samþykkt, er gert ráð fyrir að ferli vegna skoðunar og mats á virkjunarkostum í vindorku verði einfaldara og skjótara en það er í dag, enda verði byggt á skýrri opinberri stefnumörkun um staðsetningu slíkrar starfsemi. Jafnframt verður vernd svæða, sem talin eru verðmætust út frá náttúrufari, tryggð.
Tillaga til þingsályktunar um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands