Umhverfisþing 27. apríl – skráning hafin
Skráning er hafin á XII. Umhverfisþing sem haldið verður þriðjudaginn 27. apríl. Umfjöllunarefni þingsins eru náttúruvernd, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Þingið fer fram rafrænt og stendur frá kl. 13 – 16.
Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) ávarpar þingið en hún mun m.a. ræða um stöðu umhverfismála á heimsvísu og hvaða lærdóm megi draga af þeim miklu breytingum sem samfélög hafa gengið í gegn um á undanförnu ári vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Í tilefni af Degi umhverfisins, 25. apríl, mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenda viðurkenningar, annars vegar Kuðunginn sem veittur er fyrir framúrskarandi umhverfisstarf fyrirtækis og hins vegar útnefnir hann Varðliða umhverfisins, sem er viðurkenning veitt grunnskólanemum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.
Í tveimur málstofum þingsins verður horft fram á við í veigamiklum umhverfismálum samtímans. Í málstofu um loftslagsmál og hringrásarhagkerfið verður m.a. fjallað um næstu skref í orkuskiptum í samgöngum, um framtíðarsýn Carbfix-lausnarinnar og um tækifærin í hringrásarhagkerfinu, auk þess sem ungir vöruhönnuðir deila sýn sinni á framtíðina.
Í málstofu um náttúruvernd verður rætt um vernd og endurheimt vistkerfa og um landbúnað og náttúruvernd. Fulltrúi frá dönsku náttúruverndarsamtökunum segir frá nýju samkomulagi sjávarútvegsins og náttúruverndarhreyfingarinnar þar í landi um ný verndarsvæði í hafi og fjallað verður um kortlagningu víðerna.
Í báðum málstofum verður efnt til pallborðsumræðna þar sem gestir þingsins geta sent inn spurningar og vangaveltur.
Þingið er öllum opið og er fólk hvatt til að skrá sig hér að neðan.